143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[19:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er gott að frýjuorðin bitu á fjármálaráðherra. Víst hefði verið best að vera án þeirra en stundum þurfa þingmenn að særa hæstv. ráðherra af sínu háa plani hingað í umræðuna við okkur hina.

Ég segi nei við þessari tillögu vegna þess að kvöld- og næturfundur er ekki til þess fallinn að koma á friði og sátt í þinginu og við þjóðina. Hann er til þess fallinn að ala á ófriði. Því miður get ég ekki talað oftar í þessari umræðu, ég hef nýtt mínar tvær ræður, en komi þessi hótun hér aftur til síðari umr. þá er ræðutími okkar sem betur fer ekki takmarkaður við svo lítinn tíma heldur getum við þá frjáls rætt þessi málefni eins lengi og hugur okkar stendur til. Ég heiti þingmönnunum því að það mun ég gera ef ekki verða þær nauðsynlegu breytingar á málinu í nefnd sem fyrirheit hafa verið gefin um.