143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta snýst dálítið um inn- og úthugtökin. Ég hef verið afar ósátt við að menn hafi talið það fyrir neðan virðingu sína að eiga samtal við okkur þingmenn um þetta mikilvæga mál. Hv. þingmaður þekkir vel til stjórnmálasögunnar og ég held að í sögulegu samhengi sé þetta til dæmis mjög óvanalegt fyrir forustumenn í Sjálfstæðisflokknum að koma fram á þennan hátt þegar úti er krafa 50 þúsund manna í undirskriftum, þegar 82% þjóðarinnar gera kröfu um að málinu sem hér liggur fyrir verði breytt.

Formaður Sjálfstæðisflokksins telur að hann eigi ekki sérstakt erindi í þessa umræðu. Það þykir mér afar undarlegt. Í sögulegu samhengi held ég að það sé meira í anda Sjálfstæðisflokksins að reyna að ná einhverri breiðfylkingu saman. Hugsanlega er þeim farið að líða vel í kringum 20%, hugsanlega finnst þeim orðið þægilegt að geta þá tekið harðari línur, eins og þeir eru að gera hér, og hætta að vera breiðfylking. Það mun án efa breyta mjög landslagi stjórnmálanna til lengri tíma litið. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í fangið á Framsóknarflokknum og félagsskapurinn Heimssýn er farinn að stýra utanríkisstefnu þeirra; það er það sem er að gerast.

Það er líka mjög óvenjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli herða tökin, ef eitthvað er, á því að sýna vald sitt, eins og þeir gerðu með atkvæðagreiðslu áðan um lengd þingfundar, þegar andstaðan kemur ekki síst frá atvinnulífinu. Atvinnulífið allt er á móti þessari aðferðafræði, segir að verið sé að loka tækifærum, loka möguleikum á frekari vexti í samfélagi okkar (Forseti hringir.) og á það er Sjálfstæðisflokkurinn að loka dyrunum. Ég vil biðja (Forseti hringir.) hv. þingmann um að segja mér hvort hann telji ekki að þetta (Forseti hringir.) sé nokkuð rétt lýsing hjá mér á því sem gæti gerst í framhaldinu.