143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég held að óskastaðan væri einmitt sú að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði seint á kjörtímabilinu þannig að sú þjóðaratkvæðagreiðsla og niðurstaðan úr henni gæti orðið grundvöllur fyrir umræðunni sem færi fram fyrir næstu kosningar svo að flokkarnir gætu staðsett sig betur og átt skýrara samtal við kjósendur. Það gæti verið mjög gott. Á móti kemur auðvitað að maður mundi helst vilja hafa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu snemma til að fá niðurstöðuna sem fyrst, en þá koma einmitt upp þessir „ómöguleikar“ sem ég gef mjög lítið fyrir og lít persónulega á sem yfirlýsingu um vanhæfi. Ég er náttúrlega ungur í pólitík og veit ekki alveg nákvæmlega hvernig allt virkar hér á bæ, en mér finnst þetta mjög undarleg rök svo að meira verði ekki sagt. Ég hef oft líkt þessu við lögfræðinginn sem getur ekki unnið að hagsmunum skjólstæðings síns vegna þess að hann sé ekki með nógu gott mál. Þá væri náttúrlega réttarfarið bara farið, alveg eins tel ég lýðræðið bara farið ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að gera eins og henni er sagt.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um nokkrar breytur sem geta ákvarðað hvernig nákvæmlega svona ferli yrði útfært, þ.e. aðkoma þjóðarinnar í málinu. Einn möguleikinn er að gera hlé og halda engar þjóðaratkvæðagreiðslur á þessu kjörtímabili. Það er það sem maður hefði kannski búist við áður en farið var út í þá klunnalegu útfærslu að slíta viðræðunum án þess að spyrja kóng, prest eða þjóð. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður mundi telja það vera einhvern grundvöll að (Forseti hringir.) gera bara hlé á viðræðum og láta þing næsta kjörtímabils (Forseti hringir.) taka við málinu, þá væntanlega (Forseti hringir.) með þjóðaratkvæðagreiðslu.