143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nokkuð óvanalegt að vera spurður í framsöguræðu um málið, þ.e. þegar verið er að flytja ræðu, en ég skal ekki gera djúpar athugasemdir við það. Ég áskil mér samt sem áður rétt í andsvari til að koma með mínar eigin spurningar til hv. þingmanns.

Hv. þingmaður segir lítil rök til staðar fyrir því að kalla aðildarumsóknina til baka á þessu stigi. Því vil ég andmæla og tel að þau hafi mörg birst okkur meðal annars í síðustu ríkisstjórn sem sýndi þennan ómöguleika mjög glögglega í verki. Hinn pólitíski ómöguleiki birtist til dæmis þegar koma þurfti einum ráðherra út úr ríkisstjórninni vegna þess að hann var ekki samvinnuþýður í aðlögunarferlinu. (LRM: Æ, hættu …) Mætti ég biðja, forseti, um að fá hljóð? (Gripið fram í.) Ég gæti svo sem lesið upp úr skrifum hv. þingmanns sem í hlut átti, Jóns Bjarnasonar, (Gripið fram í.) frá því í dag um þetta ef ég mætti halda áfram.

(Forseti (SilG): Ræðumaður hefur orðið.)

Hv. þingmaður sem var að minnsta kosti í sama flokki og ráðherrann sem átti í hlut og þurfti að víkja úr ríkisstjórninni hefur mjög hneykslast á því hér í dag að menn skuli ekki fylgja vilja þjóðarinnar. Ráðherrann sem í hlut átti lýsir því ágætlega í skrifum sínum í dag að það hafi legið við stjórnarslitum þegar menn lýstu yfir áhuga á að setja málið til þjóðarinnar á árinu 2009. Þeir þingmenn sem hneykslast á að ekki standi til að gera það nú ættu aðeins að gera grein fyrir því hvers vegna það mátti alls ekki gerast á árinu 2009.

Að öðru leyti vil ég bara minna á að allt þetta hafði þær afleiðingar að núverandi formaður Samfylkingarinnar þurfti líka að gefa eftir ráðherrastól sinn við þetta tilefni þannig að þar birtist hinn pólitíski ómöguleiki. Sjálfur núverandi formaður Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) þurfti að gefa eftir ráðherrasæti sitt (Forseti hringir.) vegna þess að viðræðurnar gengu ekki betur en raun ber vitni. Þetta er svarið við því hvað átt er við þegar talað er um pólitískan ómöguleika.