143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:43]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna sem aftur er mjög góð. Ég vil meina að valdaafsal okkar Íslendinga til Evrópu hvorki hefjist né ljúki við það að við göngum í Evrópusambandið eða inn í EES-samkomulagið. Í raun og veru hefst ákveðið valdaafsal okkar um leið og við verðum háð milliríkjaviðskiptum og samskiptum við önnur lönd. Íslenskt atvinnulíf, lífsstíll íslenskra fjölskyldna o.s.frv., er háð góðum og greiðum samskiptum við útlönd. Við sækjum þangað menntun, áhrif, hugmyndir, stundum viðskipti og öðlumst auð og grundvöll þessa lífsstíls okkar í gegnum það. Það er auðvitað valdaafsal. Ef ég get ekki keypt Nokia-stígvélin, sem eru eini skóbúnaður sem ég get hugsað mér, vegna þess að þau eru ekki flutt inn, þar sem við eigum ekki í viðskiptum við Finnland, er ég háður viðskiptum við Finnland.

Heimurinn er alltaf að verða flóknari og flóknari. Það er ekki bara tæknin sem gerir heiminn flóknari heldur líka meiri og aukin samskipti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er heimurinn að verða minni og minni og samskiptin meiri. Á móti kemur að það er líka tilhneiging til miðstýringar, en á sama tíma er tilhneiging til valddreifingar. Á sama tíma og öll Nokia-stígvél eru geymd í einu vöruhúsi einhvers staðar í Finnlandi eru þau ekki lengur bara seld í 10 búðum í Helsinki, heldur er hver einasti íbúi Helsinki kominn með, í gegnum tölvuna sína, sína prívatbúð til að panta sér Nokia-stígvél.

Þannig að ég held að þessi (Forseti hringir.) tilhneiging sé í báðar áttir.