143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:48]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn og skemmtilegar hugrenningar.

Ég deili áhyggjum þingmannsins um að unga fólkið fari. Ég tel að við höfum þá þekkingu á heiminum og getu að við látum ekki endilega bjóða okkur upp á það sem við létum bjóða okkur upp á fyrir 30, 40 árum af því við vissum ekki betur eða kunnum ekki betur. Þegar ég horfi til framtíðarinnar með nostalgíu er það alls ekki notaleg tilhugsun, þvert á móti. Ég upplifði níunda áratuginn og tónlist níunda áratugarins á sínum tíma og var nú ekki hrifnari en svo að mér líður ekkert sérstaklega vel að sjá þann sama veruleika og þá sömu tónlist koma aftur. Það er eiginlega óhugguleg tilhugsun.

Ástæðan fyrir því að ég tala um nostalgíu þegar ég horfi til framtíðarinnar er vegna þess að það er svo margt sammerkt í stöðunni þá og nú og við höfum ekki fengið nein rök fyrir því eða nein loforð um að staðan sé að breytast í náinni framtíð. Ég er viss um að langafa mínum fannst allt í lagi að detta í gjaldeyrishöft á árunum upp úr 1920, hann gæti örugglega bjargað sínum viðskiptum í einhver ár, en ég er viss um að hann hafi verið orðinn dálítið leiður á þeim 30 árum seinna þegar hann lést. Þannig að ég hef áhyggjur af framtíðinni.

Munurinn á árinu núna og því þegar ég var í menntaskóla er kannski sá að unga fólkið kemst til útlanda, það getur búið í útlöndum, það getur talað við mömmu á Skype, hvort sem það býr í Kópavoginum eða í Peking. Það getur meira að segja flett upp á netinu hvert það á að fara.