143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:53]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að brydda upp á nálægðarreglunni sem er ein uppáhaldsregla þess sem hér stendur, fyrrverandi sveitarstjórnarmannsins. Nálægðarregla er afskaplega mikilvæg, þ.e. reglan um að ákvörðun eigi að taka og vald eigi að geyma eins nálægt þeim sem hún hefur áhrif á. Þessi regla sem er fest í sessi í Lissabonsáttmálanum í Evrópu er grundvöllur t.d. að byggðastefnu og félagsmálastefnu Evrópu. Þarna held ég að við hér á Íslandi getum lært heilmikið af að sumu leyti vegna þess að við höfum dálítið, kannski að hluta til af því við erum lítið samfélag og með litla getu, hneigst til þess að búa til miðlægt vald. Af því að stofnanir okkar eru svo litlar spörum við með því að sameina þær í eina og það þýðir náttúrlega að við fáum bara eina tegund af ákvörðun tekna af einni tegund af fólki sem yfirleitt endar í Reykjavík.

Mér finnst því nálægðarreglan mjög mikilvæg. Ég held að þarna geti Ísland að mörgu leyti grætt á því að vinna eftir aðferðum Evrópusambandsins, bæði vegna þess að ákveðin svæði Íslands mundu njóta sín betur eða hafa meira vald yfir sjálfu sér, en eins vegna þess að Ísland sem lítið jaðarsvæði í Evrópu hefði að mörgu leyti mjög mikið vald yfir sjálfu sér.

Að því sögðu og með miklum efasemdum þess sem hér stendur almennt gagnvart valdi, er vald líka mjög að breytast í heiminum í dag. Einstaklingarnir búa yfir miklu af valdi sem áður bjó hjá stjórnvöldum. Sama má segja um fyrirtæki, (Forseti hringir.) markaði o.s.frv. Þetta miðlæga vald er orðið dálítið að mýtu.