143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það þarf að vera fyrir hendi bæði þingvilji og þjóðarvilji. En þingviljinn getur falist í því að virða þjóðarviljann og það er ekkert ómálefnalegra en hver annar þingvilji.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði 24. apríl þegar ómöguleikinn mikli blasti við, aðspurður hvað það þýddi ef hann myndaði stjórn með Framsóknarflokknum: Við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.

Að bera þessa slitatillögu undir þjóðina, tillögu sem hvergi var orðuð fyrir kosningar, ekki af einum einasta forustumanni Sjálfstæðisflokksins, möguleikann á slitum, er ekki að útkljá þetta mál. Þá getum við sem hægast lent í sömu aðstöðu og framsóknarmenn lentu í á hinu fræga flokksþingi sínu 2011 þegar þeir felldu tillögu um að halda áfram og felldu tillögu um að hætta við. Það er ekki góð staða fyrir íslenska þjóð.

Þetta mál verður ekki útkljáð nema með frjálsri atkvæðagreiðslu, en ekki (Forseti hringir.) þeirri nauðungaratkvæðagreiðslu að greiða atkvæði um þessa gölluðu tillögu.