143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er reyndar ekki rétt að ég hafi ekki tjáð mig með þeim hætti að við í Sjálfstæðisflokknum vildum halda okkur utan Evrópusambandsins og að til greina kæmi að draga aðildarumsóknina til baka. Það gerði ég áður en þetta tilvitnaða viðtal átti sér þannig að ég hef orðað þá hugsun áður.

Hér skiptir miklu að svara því hvort þær aðstæður geti ekki skapast að ríkisstjórn hyggist fara að þjóðarviljanum eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu geta þær aðstæður skapast að ríkisstjórn taki ákvörðun um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, setja mál á dagskrá og fylgja síðan eftir niðurstöðu í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt um þetta sem við eigum eftir að ræða í tengslum við breytingar á stjórnarskránni, hvernig við getum tryggt slíkan rétt inn í stjórnarskrána og haldið utan um framkvæmd slíkra hluta. En það er útúrsnúningur að halda því fram að með því að benda á þessa vankanta sem ég hef gert hér að umræðuefni sé ég þeirrar skoðunar að það sé bara í góðu lagi að (Forseti hringir.) ríkisstjórn fari ekki að þjóðarviljanum eins og hann birtist á hverjum tíma.

Við verðum að geta tekið (Forseti hringir.) umræðu í þjóðaratkvæðagreiðslu og vilja þingsins í aðeins víðara samhengi en þessu.