143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér fór ekki fram umræða um fundarstjórn forseta áðan enda var hæstv. fjármálaráðherra kominn á mælendaskrá og það greiðir fyrir störfum fundarins. Ég lýsi aftur ánægju með það að hæstv. innanríkisráðherra sé komin til fundarins og hvet hana til að fara líka á mælendaskrá og skýra viðsnúning sinn í málinu. Það mundi sömuleiðis greiða fyrir störfum fundarins.

Ég auglýsi enn eftir hæstv. ráðherrum, Illuga Gunnarssyni, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Kristjáni Þór Júlíussyni, að þau komi hingað til starfsskyldna sinna og geri grein fyrir viðsnúningi sínum í málinu. Það er lágmarkskrafa til umræðunnar í þinginu.

Það er líka ástæða til að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi hingað. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að vinnan í utanríkismálanefnd eigi að snúast um það með hvaða hætti aðkoma þjóðarinnar að þessari ákvörðun geti orðið. Getur Framsóknarflokkurinn gefið út sams konar yfirlýsingu? Það er sannarlega ekki komið til móts við kröfur okkar í Samfylkingunni, en þá hefði okkur að minnsta kosti þokað áfram um eitt hænuskref í umræðunni hér og sett niður einhverjar deilur.