143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þingmann um hvað sé gerræðislegt og hvað ekki, hvort það sé gerræðislegt að krefjast þess að tillagan sé dregin til baka þegar 1. umr. er ekki lokið, það sé ósanngjarnt að hún sé dregin til baka, hvort það sé frekt að hún sé dregin til baka, hvort það hafi nokkurn tímann gerst áður, til dæmis á síðasta þingi, að menn hafi sett fram slíka kröfu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það fer enginn í þessa vinnu í nefndinni með fyrir fram mótað „mandat“ eða hvað á að kalla það eða skipanir frá utanríkisráðherra. Framsóknarflokkurinn á þrjá fulltrúa í nefndinni. Þeir meta einfaldlega málið út frá athugasemdum sem koma inn, út frá gestum, út frá öðrum tillögum, út frá hugmyndum, út frá umræðunni. Það er það sem gerist í nefndinni. Málið verður ekki afgreitt í 1. umr. í þingsal. Ég man ekki eftir, alla vega frá því ég kom inn á þing sem er svo sem ekki langt síðan, 2009, að það hafi gerst að mál sem sé afgreitt í 1. umr. fái ekki að fara til nefndar.