143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvar maður á að byrja þegar kemur að því að tala um Evrópusambandið í heild sinni, ef um það væri að ræða hvort við ættum að ganga í sambandið eða ekki, til þess þyrfti maður meira en tíu mínútur og meira en fimm mínútur. Hér erum við að ræða hvort slíta eigi viðræðum sem er önnur spurning. Það er eðlilegt að við ræðum Evrópusambandið efnislega í því sambandi, en eftir stendur að ágreiningur er um málsmeðferðina, ágreiningur um það hvernig staðið er að málinu sjálfu. Í þokkabót hefur almenningur skilið það sem talsmenn hæstv. stjórnarflokka sögðu fyrir kosningar, og reyndar eftir kosningar líka, á þann veg að halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu um efnið og enginn virðist deila um það nema hæstv. ríkisstjórn. Meira að segja gallharðir sjálfstæðismenn eru pirraðir út í Sjálfstæðisflokkinn fyrir það sem margir stuðningsmenn hans skynja sem svik. Fyrrverandi formaður talar jafnvel um ein mestu kosningasvik Íslandssögunnar, ef ég hef skilið þetta rétt.

Ef eingöngu væri um það að ræða væri það kannski ekki heimsmet í þrjósku, en við bætast mótmæli eftir mótmæli fyrir framan hið háa Alþingi. Önnur eins mótmæli hafa ekki sést á Íslandi eftir hrun, ekki frá því efnahagurinn hrundi til grunna eða svo gott sem. Undirskriftir eru orðnar 49.791; það eru 20,6% af kosningabærum mönnum á Íslandi.

Stundum er talað um þjóðaratkvæðagreiðslur sem þjóðin sjálf gæti knúið fram og eru oft nefndar fáránlega háar prósentutölur í því sambandi, 30% eða 40%, en jafnvel 20% hefur mér fundist allt of hátt, hef talið að það mundi einfaldlega þýða að aldrei yrðu haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur. Að mínu mati er 10% það allra hæsta sem hægt væri að lifa við til að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði nokkurn tímann að raunveruleika. Í mínum huga snúast þjóðaratkvæðagreiðslur ekki bara um að vera varnagli gagnvart slæmum eða óvinsælum aðgerðum yfirvalda, þær eiga ekki eingöngu að vera einhver veik ógn eða eitthvað sem ríkisstjórnir þurfa að passa sig á, þurfi að hafa samráð til að hindra. Nei, ég vil að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi sér raunverulega stað. Það eru nokkrar ástæður fyrir því.

Ein er sú að ég tel þjóðina eiga þetta land og að hún eigi að taka ákvarðanir. Og geri þjóðin mistök eigi hún að læra af þeim; hún kýs stundum flokka og þarf að læra af þeim mistökum, sem gerist ítrekað, aftur og aftur að því er virðist. En hvað sem því líður er lýðræðið það sama og einstaklingsfrelsi, bara á öðrum skala.

Í öðru lagi, sem er kannski mikilvægara út frá praktísku sjónarmiði, er það að með þjóðaratkvæðagreiðslum, þ.e. þegar þær eiga sér raunverulega stað, fer þjóðin og kynnir sér málin og rifrildin breytast í rökræður. Markmiðið hættir að vera það að sigra í rökræðum og fer yfir í það að reyna að komast að réttri niðurstöðu. Þetta hef ég séð gerast. Ég sá þetta gerast í kjölfar þess að forseti lýðveldisins neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin svokölluðu.

Aftur að þessari tilteknu þingsályktunartillögu. Einhvern veginn mælir ekkert með því hvernig staðið hefur verið að þessu. Nú höfum við talað um þetta mál í tvær til þrjár vikur. Eða hvað? Ég man ekki einu sinni hve lengi. Það eru þrjár vikur og samningafundir hafa verið haldnir af og til, helst þegar ekki mátti búast við þeim. Þeir samningafundir hafa ekki leitt af sér neina niðurstöðu vegna þess að hætt var við þá á seinustu stundu. Ekkert hefur verið komið til móts við athugasemdir um þingsályktunartillöguna. En nú á að setja málið í nefnd og þá á að athuga hvort hugsanlega sé hægt að koma til móts við þær gagnrýnisraddir sem lýsa sér í 49.791 undirskrift, í mótmælum þúsunda manna dag eftir dag — (Forseti hringir.) og meira að segja eru mótmæli í dag, ekki þúsundir manna að vísu eins og verið hefur í þrjár vikur (Forseti hringir.) en fólk er enn að mótmæla. (Forseti hringir.)

Ef ekki á að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) spyr ég: Hvenær í ósköpunum ætti að (Forseti hringir.) halda þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkurn skapaðan hlut í þessu landi?