143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur hér áðan. Er það í raun og veru þannig að forseti hafi komið þeim tilmælum á framfæri við ráðherra Sjálfstæðisflokksins að þeir yrðu í þingsalnum? Mér þykir mikilvægt að heyra svar af forsetastóli við þeirri spurningu. Samkvæmt lögum ber þingmönnum að sækja þingfundi nema lögmæt forföll hamli og allir þessir ráðherrar reyndust bæði sprelllifandi og spriklandi hressir fyrr í kvöld þegar þeir komu glaðbeittir til atkvæðagreiðslu um að við ættum að standa hér áfram fram á nótt án þess að heyra sjónarmið þeirra í málinu. Eftir því er kallað víða í samfélaginu að þeir skýri afstöðu sína til málsins. Það er fráleitt þegar óskað er nærveru þeirra að forseti (Forseti hringir.) bregðist ekki við slíkri bón. Því spyr ég forseta: Hefur slíkri bón verið komið á framfæri við ráðherra?