143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það eru farnar að koma fyrirspurnir til okkar sem erum í þingsal um það af hverju við höldum áfram þegar fyrir liggur að fara eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu og hæstv. utanríkisráðherra hefur að samþykkt að ekkert liggi á þessu. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hverju ég á að svara. Ég verð að segja þeim sem eru að fylgjast með að ég hef því miður ekki fengið nein svör um hvað þeir voru að segja áðan, þótt það sé komið í fjölmiðla að túlkun annarra. Er þetta tillaga hæstv. fjármálaráðherra eins sem hér kom fram um að leita eigi til þjóðarinnar og nefndin megi ganga þannig frá málinu og um þá hvað? Hæstv. utanríkisráðherra situr hér með okkur og segir ekki eitt einasta orð. Hér er formaður þingflokks Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir.

Eru menn tilbúnir að taka undir þetta þannig að við getum lokið málinu með því að segja að búið sé að draga þessa tillögu til baka og við séum komin með sátt um að farið verði í einhverju formi í að leita (Forseti hringir.) til þjóðarinnar? Mér finnst þetta skipta máli. Við þurfum ekkert að ræða þetta á tíma hér. Við getum beðið með umræðuna þangað til niðurstaðan kemur þaðan.