143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, að mörgu leyti eru það hinir augljósu og hreinu kostir í stöðunni. Ef menn velja að leggja málið þannig niður fyrir sér að kosið verði fljótlega eða nú get ég alveg tekið undir að það eru augljóslega hinir hreinu kostir í stöðunni. Það breytir að vísu ekki því að það gæti verið að þó nokkur skerfur þjóðarinnar sætti sig alveg við þá niðurstöðu að gert yrði eitthvert hlé á viðræðunum ef engum dyrum væri lokað og það lægi ljóst fyrir að þjóðin tæki síðan á einhverjum tímapunkti ákvörðun um framhaldið, eins og felst í miðlunartillögu okkar.

Út af fyrir sig hafa orðið mörg merkileg tíðindi í þessu ferli, ekki bara hér í kvöld. Íslensk tunga hefur auðgast af nýyrðinu „ómöguleiki“ og nú hefur í raun og veru hæstv. … (ÁPÁ: Framfylgjanleiki.) — og „framfylgjanleiki“. Nú hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra unnið bug á ómöguleikanum því að hann var að segja okkur hér í kvöld að hann sæi einhverja leið fram hjá ómöguleikanum. (Gripið fram í: Já.) Annars væri hann ekki að opna á það að kannski yrði kosið um þetta.

Mín spá er sú að formaður Sjálfstæðisflokksins eigi eftir að hugsa sig betur um áður en hann heldur til streitu hugmynd sinni sem glitti hér í um kosningar á þessum forsendum. Væri það skynsamlegt út frá sjónarhóli þeirrar afstöðu sem hann hefur til málsins og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn að bjóða þjóðinni upp á þessa kosti? Glittir ekki í það? Er ekki nokkuð ljóst hvað þjóðin mundi þá segja? Hún mundi hafna leiðinni sem boðið er upp á í tillögunni. Það er mitt mat á stöðunni, skoðanakannanir sýna að það eru yfirgnæfandi líkur á því. Vill ríkisstjórnin bera þá tillögu upp sem líkleg er til þess að kolfalla? Væri ekki hyggilegra hjá henni að velta fyrir sér fleiri möguleikum? Er ekki vel boðið að hafa kastað bjarghring til hennar með því að opna á það að (Forseti hringir.) við ræðum bæði form og tímasetningar á einhvers konar kosningu sem við verðum sátt um að sé skynsamlegasti og skýrasti kosturinn að bera fyrir þjóðina?