143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður telur að hér sé ekki verið að verja almannahagsmuni. Þó segir í lok greinargerðar með þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Að lokum er rétt að hnykkja á því að þessi tillaga til þingsályktunar byggist á mati á íslenskum þjóðarhagsmunum og því hvernig þeirra verði best gætt.“

Þetta er næstsíðasta setningin í greinargerðinni en greinargerðin fjallar að öðru leyti um stöðuna og skýrslu Hagfræðistofnunar en ekki um stóru hagsmunamálin. Þau koma ekki hér fram, þau eru ekki dregin fram hér heldur í umræðunni. Við vitum hins vegar að von er á skýrslu frá aðilum atvinnulífsins og þar verður tekið á stóru hagsmunamálunum. Ég vil þá spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að nauðsynlegt sé að bíða eftir þeirri skýrslu og taka þá umræðu um hana í þinginu og eins í nefndinni þar sem fjallað verður um málið.

Sumir vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið vegna þess að þeir vilja eiga þann möguleika að eiga heima á Íslandi. Ég vil einnig spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér atvinnustefnuna ef við höldum áfram í þessu umhverfi með veika krónu og öllu sem því fylgir?