143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hygg að næst á mælendaskrá sé þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem óskað hefur eftir því að forustumenn ríkisstjórnarinnar séu við ræðu hennar. Ég geri ráð fyrir að forseti hafi gert ráðstafanir til að svo gæti orðið ef hann hyggst halda mælendaskránni áfram í nótt. Það er auðvitað í höndum meiri hlutans að halda áfram fundinum. Hann kýs sjálfur hvaða brag hann vill hafa á þinghaldinu en hann hlýtur að tryggja að við slíkum óskum verði orðið ef hann hyggst halda áfram mælendaskránni.

Næst á eftir er oddviti stjórnarandstöðunnar, formaður Samfylkingarinnar, sem snemma í dag gerði grein fyrir því hverja forustumenn í stjórnmálum hann vildi eiga orðastað við í þingsalnum. Hyggist hæstv. forseti líka láta hann tala í nóttinni geri ég ráð fyrir því að hann hafi gert þær ráðstafanir sem þarf til að sú ræða geti farið fram því að hæstv. forseti verður að gæta jafnræðis meðal þingmanna og hann getur ekki skikkað suma þingmenn til að vera við umræðuna um miðja nótt en látið aðra forustumenn í stjórnmálum sofa heima værum svefni og virða að vettugi lögskipaðar starfsskyldur sínar um að sækja (Forseti hringir.) þingfundi nema nauðsyn banni.