143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurskurðurinn reyndist reyndar 7,5% á utanríkisráðuneytið þannig að þar þurfti að glíma við stærri bita. Kannski má segja að það sé betra en að setja hærri kröfu á velferðarráðuneytið. Það er enginn sjúklingur eða öryrki sem þarf að huga að í utanríkisráðuneytinu eða í sendiráðunum, en hins vegar er (Gripið fram í.) augljóst að hæstv. utanríkisráðherra var að boða ákveðna stefnu sem fólst í því að styrkja samskipti við Evrópuríki. Þær setningar má finna í fjárlagafrumvarpinu.

Þar er tvennt sem gert var ráð fyrir, 45 milljónum sem áttu að fara sérstaklega í að styrkja samskiptin við Evrópusambandið og Evrópuríki og síðan 36 milljónunum til að enduropna skrifstofuna í Strassborg vegna þess að það hafði reynst erfiðleikum bundið að stýra hagsmunagæslunni frá París.

Þetta lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að yrði tekið út og meiri hluti Alþingis samþykkti. Þess vegna hlýt ég að spyrja þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur hingað með Evrópustefnu sem leggur áherslu á nákvæmlega þetta hvort hann hafi í rauninni þingstyrk. Er stjórnarmeirihlutinn samþykkur þessari stefnu utanríkisráðherra? Hann vill að minnsta kosti ekki setja aur til hennar.