143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

beiðnir um sérstakar umræður.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Aftur verð ég að gera smáathugasemd við það hvernig hv. þingmaður leggur hlutina upp. Hann var t.d. í viðtali til að vekja máls á þessum miklu áhyggjum sínum af því að vera ekki sinnt í sérstökum umræðum þar sem hann hélt því fram að forsætisráðherra hefði bara tekið þátt í einni af 45 beiðnum um sérstakar umræður, eins og mátti skilja hv. þingmann. Hið rétta er auðvitað að í langflestum tilvikum, eins og ég gat um áðan, er sérstökum umræðum beint til fagráðherra á ákveðnum sviðum og er ekkert út á það að setja.

Fyrir liggja fjórar beiðnir um sérstaka umræðu. Þar af hef ég tekið eina, ég hef gert þinginu viðvart bæði í tilviki hv. þingmanns og hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að ég sé tilbúinn að taka við þá sérstakar umræður án þess að þeir hafi verið á staðnum eða séð sér fært að taka þær á þeim tíma. Það þýðir ekki að menn fái bara eitt tækifæri til að taka sérstaka umræðu. Hins vegar er eðlilegt að geta þess að það hefur ekki verið bara á annan veginn hvað varðar þetta atriði.

Hvað varðar samráð almennt stendur það í sjálfu sér sem samið var um (Forseti hringir.) og menn munu hafa samráð um vonandi (Forseti hringir.) sem flesta hluti, en það breytir þó ekki því að hér er ný ríkisstjórn með nýja stefnu, hún mun fylgja þeirri stefnu en hlusta á ábendingar. (Gripið fram í.)