143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

stjórnarfrumvörp um skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég var farinn að halda eftir fyrri fyrirspurn hv. þingmanns að honum tækist í fyrsta skipti í mínu minni að komast í gegnum heila fyrirspurn án þess að fara út í verulegan skæting. Að sjálfsögðu gekk það ekki eftir. [Kliður í þingsal.]

Vitaskuld var eðlilegt að svara líka áhyggjum þingmannsins, það var ekki hægt að skilja það öðruvísi í fyrri fyrirspurninni en svo að hv. þingmaður hefði þær áhyggjur sem hann lýsti. Hvað varðar hins vegar þau frumvörp sem hv. þingmaður spyr um þekkir hv. þingmaður stöðu þeirra mála mætavel. Fyrir liggur greining sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar, reyndar meiri hluta og minni hluta, á því hvernig rétt sé að standa að því. Eins og meðal annars hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir hófst strax vinna við að útfæra og undirbúa framkvæmd að afnámi verðtryggingar þegar niðurstaða þessarar vinnu lá fyrir. Því getur hv. þingmaður verið rólegur hvað það varðar rétt eins og gerð hefur verið grein fyrir því hvað miðar vinnu við lyklafrumvarpið. (Forseti hringir.) Hæstv. innanríkisráðherra hefur sérstaklega fjallað um það í þinginu. (Gripið fram í: Er ekkert svar?)