143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[10:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að hér var lagt fram lítið frumvarp í gær. 1. umr. kláraðist því miður ekki til að koma því hratt og vel inn í þingið til að tryggja með því það samráð sem menn hafa kallað eftir og ég hef svo sannarlega verið tilbúinn að standa að. Það var kannski vegna þess að menn höfðu talsverðan áhuga á að ræða um þetta litla frumvarp, meiri en maður hefði getað ímyndað sér fyrir fram. 1. umr. kláraðist því miður ekki í gær, annars væri það að minnsta kosti komið á þann vettvang sem eðlilegastur er.

Varðandi það hvenær hér kæmu inn frumvörp um endurskoðun á stjórn fiskveiða og veiðigjöldum, svokölluð innleiðing samningaleiðar eins og ég hef margoft útskýrt í þinginu og veiðigjöldin sem tengjast því, þá eru vítin til að varast þau. Á síðasta kjörtímabili var oft komið inn með frumvörp sem reyndust ekki nægilega vel undirbúin, fengu hroðalega dóma allra hagsmunaaðila. Mig minnir að í einu tilvikinu hafi einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar kallað það bílslys, 95 eða 96 veittar umsagnir voru allar mjög neikvæðar. Mig minnir að Samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ hafi verið það eina sem var jákvætt gagnvart frumvarpinu af 95–96 umsögnum. Ég mun í minni vinnu reyna að forðast að lenda í slíku og tel mikilvægt að vanda mig. Ég mun koma með það frumvarp hingað inn þegar ég tel það fullbúið. Það er vissulega ekki langur tími til stefnu til að klára það fyrir 16. maí, það eru þó tæpir tveir mánuðir. Við skulum sjá hvernig okkur gengur í þeim efnum.