143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Megingagnrýni mín á útfærslu utanríkisstefnu í höndum hæstv. ráðherra er sú að hann hefur að ósekju, og hæstv. ríkisstjórn, grafið undan stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu. Það liggur fyrir að a.m.k. sex svið eru undir, sem við þurfum að semja um við Evrópusambandið á næstu missirum. Ég tel að þegar menn fara í samninga byrji þeir ekki á því að kasta grjóti og köpuryrðum í þann sem semja ber við. Það er svo einfalt. Það er fyrsta vers í samningum.

Að því er makrílviðræðurnar varðar ætlaði ég ekki að ræða það frekar. Það hefur komið algjörlega skýrt fram af minni hálfu að ég tel að samninganefndin hafi haldið meistaralega vel á hlut Íslands og skilað málinu í hendur hæstv. utanríkisráðherra þannig að þá var svarti pétur ekki hjá okkur heldur annars staðar. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að ég hef hrósað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hafa staðið fast á grundvallarprinsippum um sjálfbærar veiðar. Gagnrýni mín lýtur hins vegar að því hvað gerðist eftir það. Þá tók verksvið utanríkisráðuneytisins við. Það var þá sem utanríkisráðuneytið átti að sjá til þess að okkar bestu vinir, Færeyingar, smygju ekki úr greipum okkar með þeim hætti sem gerðist. Það er það sem ég vildi segja um það mál.

Mig langar síðan að ítreka tvær spurningar til hæstv. ráðherra sam komu fram í ræðu minni. Annars vegar: Hver verður hans stefna varðandi stækkun Atlantshafsbandalagsins í ljósi atburðanna í Úkraínu? Hin síðari er þessi: Þó að okkur greini á um fjárveitingar til þróunarsamvinnu hygg ég að við séum í grófum dráttum ekki ósammála, jafnvel mjög sammála um stefnuna, en það skiptir mig máli að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort einhverjir skriflegir samningar sem gerðir voru í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi verið rofnir.