143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem tók áður undir með mér um málefni Sýrlands. Ég tel sem sagt mjög mikilvægt að við höldum vöku okkar gagnvart ástandinu og leggjum okkar af mörkum til að reyna að draga úr og lina þjáningar þeirra fjölmörgu sem þar eiga um sárt að binda.

Varðandi norðurslóðamálin þá eigum við í margs konar samstarfi við mörg ríki. Við eigum samstarf við ríkin í Norðurskautsráðinu og við eigum samstarf við sum þeirra ríkja á öðrum vettvangi, t.d. innan Atlantshafsbandalagsins, sum innan Norðurlandaráðs. Þau eru öll, hygg ég, innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu þannig að við eigum samskipti á mörgum sviðum. Auðvitað er skiljanlegt að menn reyni að halda hverjum þætti fyrir sig og reyni að eiga samskipti á hverju sviði fyrir sig jafnvel þó að menn takist á annars staðar, en það er samt óhjákvæmilegt að þegar stórir atburðir gerast þá hafi það áhrif og smiti út frá sér.

Ég hef t.d. ekki trú á því að það hafi áhrif á samstarf okkar við Noreg innan Norðurskautsráðsins þó að við eigum í fiskveiðideilu frá einum tíma til annars. Það hefur iðulega gerst, ekki bara núna heldur oft áður í sögunni. Það hefur ekki endilega áhrif á samstarf okkar þar eða í Norðurlandaráði eða þess háttar. En að því er varðar atburðina í Úkraínu, sem eru stórir atburðir í alþjóðamálum, þá tel ég að það geti vel farið svo. Hæstv. utanríkisráðherra sagði reyndar að það væri verið að hægja á fríverslunarsamningum EFTA við Rússland, sem voru fréttir fyrir mig, vegna þessara mála. Þar með erum við að láta önnur mál hafa áhrif. Við látum sem sagt framferði Rússa í Úkraínu hafa áhrif á (Forseti hringir.) viðskiptaviðræður okkar við það ríki og ýmis önnur. Það er því ekkert óeðlilegt að ætla að hið sama geti gerst (Forseti hringir.) hjá Norðurskautsráðinu en maður vonar sannarlega að það verði ekki.