143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hef búið í Rússlandi og sótt þangað menntun að hluta til, starfað þar og meðal annars farið um Krímskaga og ýmis héruð í Kákasus. Ég hef reynt að kynna mér bæði menningu og sögu þess svæðis nokkuð vel og skrifað um það líka. Ég get alveg sagt það heils hugar að ég hef miklar áhyggjur af stöðu mála á Krímskaga og þeirri þróun sem þar á sér stað. Ég þekki hins vegar söguna ágætlega og veit tilurð þess að Krímskagi tilheyrir Úkraínu en ekki Rússlandi. Hið sama má segja um Suður-Ossetíu í Kákasus sem tilheyrir ekki Georgíu. Það var Jósef nokkur Stalín sem gaf Georgíu, sínu heimaríki, Suður-Ossetíu með sérstakri tilskipun 1922. Menn geta velt fyrir sér hvort slíkar tilskipanir hafi eitthvert gildi og það sama má segja um ákvörðun Khrústsjovs 1954 sem þó var tekin á öðrum forsendum. Af hálfu alþjóðasamfélagsins er þó um að ræða viðurkennd landamæri sem njóta þjóðréttarlegrar stöðu og þarf þess vegna að virða.

Að því er varðar Norður-Kóreu hef ég litla þekkingu á því landi, verð bara að viðurkenna það, hef aldrei komið þangað og þekki engan sem hefur komið þangað. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, skýrslan sem vísað er til í skýrslu utanríkisráðherra og áður höfðu verið birtar fréttir af í fjölmiðlum er hrikaleg, um ástand mannréttindamála og yfirleitt um stöðu þjóðfélagsins. Þess vegna tek ég undir með hv. þingmanni, þar eins og því miður allt of víða í heiminum eru hörmungar sem fólk býr við, sem (Forseti hringir.) við sem erum heppin í að minnsta kosti þessum samanburði, eigum að láta okkur varða og skipta okkur af.