143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur einhvern tímann verið sagt að það sé erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ég held að það eigi við í þessu tilfelli. Það er erfitt að átta sig nákvæmlega á hver þróun mála verður. Ég hef engu að síður tilhneigingu, ólíkt því sem til dæmis kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að ætla að hér sé um tiltölulega einangrað fyrirbæri að ræða. Ég hef ekki trú á því að það sé yfirlýst stefna eða verði í framkvæmd stefna rússneskra stjórnvalda að innlima önnur svæði sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.

Árið 1967, frekar en 1965, var tekin upp stefna sem kennd var við Leoníd Brezhnev, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna sem var kallað Brezhnev-doktrínan, þ.e. Brezhnev-stefnan, í utanríkismálum Sovétríkjanna. Hún fólst í því að Sovétríkin áskildu sér rétt til að verja hagsmuni sína í nágrannaríkjum sínum sem bjuggu við sambærilegt stjórnarfar. Þessi stefna var látin fyrir róða með ræðu Míkhaíls Gorbatsjovs, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1987. Það kom fram í samtölum hans við ráðamenn í þáverandi Austur-Evrópuríkjum að Sovétríkin mundu ekki skipta sér af innri málefnum þar. Frá þessari línu hefur ekki verið hvikað, a.m.k. ekki formlega. Ég tel ekki ástæðu til að óttast hið versta í þessu efni, a.m.k. ekki nema maður sjái einhver teikn um það. Ég er sem sagt ekki eins svartsýnn og sumir og ég verð var við (Forseti hringir.) að fólk í Eystrasaltsríkjunum er mjög óttaslegið. Það má kannski vera það en ég tel, a.m.k. eins og sakir standa, að flest bendi til að þetta sé einangrað fyrirbæri. (Forseti hringir.) Eftir sem áður er það alvarlegt og það þarf að taka á því á alþjóðavettvangi.