143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin hefur áhuga á að ná niðurstöðu í þessu máli og hún hefur áhuga á því að það verði í samræmi við þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, fyrir kosningar, og endurteknar eftir kosningar. Það gerði hann á frægum fundi í Hörpu þar sem hann lýsti því yfir að hann væri enn þeirrar skoðunar að heppilegra væri að þjóðaratkvæðagreiðsla, sem hann hefði reifað fyrir kosningar, færi fram á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Það sem mér þykir merkilegast í máli hv. þingmanns er sú staðreynd að ég fann ekki betur en hann hefði lagt fram eftirfarandi hugmynd: Að haldin væri þjóðaratkvæðagreiðsla um þá tillögu sem hér liggur fyrir, verði hún samþykkt til staðfestingar. Svo sagði hann: Eftir það þá þyrfti hins vegar — ef það yrði fellt, ég skildi það þannig — að spyrja aftur hvort setja ætti tillöguna á ís eða halda viðræðunum áfram. Er hann sem sagt að leggja til tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að fá lyktir í málinu?