143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:09]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál á sérstökum þingdegi sem tekinn er frá í dagskrá þingsins fyrir utanríkismál. Ég fagna því og þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýrsluna og um margt ágæta ræðu fyrr í dag.

Það er ánægjulegt fyrir nýjan þingmann sem situr í utanríkismálanefnd þingsins að sjá breiðari umræðu um utanríkismál en við höfum fengið að kynnast hérna í vetur. Þar kemur kannski fyrst og fremst til að utanríkismálin hafa verið óvenjufyrirferðarmikil á þingi í vetur og þá auðvitað fyrst og fremst umræðan um Evrópusambandið og óvænt tillaga hæstv. utanríkisráðherra um slit á viðræðum um inngöngu Íslands.

Ég vil alls ekki bæta ofan í síðustu nokkur hundruð klukkutíma af umræðum í þinginu um Evrópusambandið og tillögu hæstv. utanríkisráðherra en ítreka þó það sem hefur áður komið fram í þeim umræðum frá minni hendi og okkar í Bjartri framtíð, við erum geysilega andsnúin tillögu hæstv. utanríkisráðherra og þá fyrst og fremst af þremur ástæðum. Okkur þykir tillagan koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þ.e. hún er ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem voru gefnar bæði fyrir og eftir kosningar og stjórnarsáttmálann eins og við skiljum hann.

Ég er líka alinn upp við að það sé ekki gáfulegt í nokkurri vinnu að loka af sjálfsdáðum fyrir möguleika sína. Það þykir mér ekki gáfuleg aðferðafræði.

Í þriðja lagi er ég heldur ekki alinn upp við að hætta vinnu í miðju kafi áður en niðurstaða er ljós. Ég trúi ekki á það að taka ákvarðanir áður en allt liggur fyrir.

Ég vil ekki í ræðu minni dvelja við umræðuna um Evrópusambandið. Það sem er ánægjulegt við lestur skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og við að heyra ræður hæstv. ráðherra og hv. þingmanna sem talað hafa á undan, sem allir eru talsvert hoknari af þingreynslu og meiri sérfræðingar í utanríkismálum en sá sem hér stendur, er að í utanríkisstefnu Íslands ríkir nokkuð mikil samstaða um allflest mál nema Evrópusambandið. Það er mikilvægt að átta sig á því að þó að stundum megi ætla annað ef maður fylgist með umræðum í þessum sal erum við Íslendingar furðusamstillt þjóð og sammála í megindráttum um mjög marga hluti þó að við rífumst um oft minni málefni, dálítið eins og fjölskylda sem rífst um það hver nennir að ryksuga eða hver gleymdi að setja lokið á smjörið en stendur síðan saman í stærri málum.

Þess vegna vildi ég í þessari umræðu fara öðruvísi í hana en hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á undan sem eru, eins og ég segi, talsvert hoknari af reynslu og eflaust þekkingu en sá sem hér stendur og ræða um grundvallargildin sem liggja að baki íslenskrar utanríkisstefnu. Skýrsla hæstv. ráðherra er mjög góð, kannski ekki síst vegna þess að hún fjallar minnst um ágreiningsatriðin um inngöngu í Evrópusambandið. Ég bendi almenningi og öllum á að þó að ekki væri nema nokkurra síðna inngangur að skýrslunni er það virkilega góð innleiðing að því að sjá utanríkisstefnu Íslands og einnig þá vinnu sem unnin er á vegum ráðuneytisins og fyrir hönd þjóðarinnar.

Mig langar rétt aðeins að vitna í stjórnarsáttmálann. Kaflinn um utanríkismál hefst á setningunni, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu er að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi.“

Þetta er að mörgu leyti mjög góð setning og segir okkur margt. Utanríkisstefna lítillar eyþjóðar eins og við Íslendingar erum byggir á því að gæta hagsmuna á alþjóðavettvangi, þ.e. viðurkenna heiminn þarna úti, þennan stóra og fjölmenna heim, og gæta hagsmuna okkar.

Ég vil staldra við orðið „hagsmunir“ í þessari setningu. Hagsmunir geta verið margs konar. Þeir geta verið mjög breiðir eða mjög þröngir. Við eigum hugtakið almannahagsmunir og þá er átt við hagsmuni þorra almennings. Það eru til dæmis hagsmunir Íslendinga að Ísland fari ekki undir hraun. Það eru hagsmunir allra einstaklinga sem búa á Íslandi. Það eru hagsmunir langflestra á Íslandi að hér sé blómleg byggð og gott veður en kannski ekki endilega allra. Þegar við hugsum svona hagsmuni og almannahagsmuni hugsum við um hagsmuni meiri hlutans eða stærri hóps.

Síðan eru aðrir hagsmunir sem eru miklu þrengri. Þeir geta líka verið réttlætanlegir. Það má spyrja sig: Eru það almannahagsmunir allra Íslendinga að Íslendingar veiði hvali? Ég á erfitt með að sjá það. Í æsku minni var neysla á hvalkjöti mjög almenn en hún er það alls ekki lengur og það er mjög auðvelt að halda því fram að hvalveiðar Íslendinga séu frekar hagsmunir tiltölulega færri og tiltölulega lítils hóps Íslendinga. Í því samhengi verður maður að taka þannig hagsmuni og vega og meta á móti öðrum hagsmunum, þá almannahagsmunum og stærri hagsmunum. Eins og kom fram í andsvörum áðan er stór spurning eins og með hvalveiðarnar, hvort þeir hagsmunir tiltölulega fárra sem felast í því að veiða hvali séu mikilvægari en hagsmunir almennings af því að milliríkjasamskipti og viðskipti okkar við til dæmis bara Bandaríkin séu góð eða hvort þar hiksti.

Þegar við tölum um hagsmuni er okkur nú orðið tamt að tengja þá alltaf við peninga. Ég veit ekki af hverju íslensk umræða hefur þróast svona. Kannski er það að einhverju leyti af því að við vorum orðin svo vön því í stóra plúsnum eða því sem við héldum að væri stóri plúsinn í efnahagsundrinu sem átti sér stað hér eftir aldamót og fram að efnahagshruninu 2008 að allt var þýtt yfir í peninga. Það mátti ekki ræða fyrirtækjarekstur, rekstur barnaumönnunar eða hvað annað öðruvísi en að tengja það yfir í krónur og aura, dollara eða evrur. Við hrunið snerist þetta við, plúsinn varð að mínus en umræðan hélt áfram um krónur og aura, núna bara í mínus. Við hættum að tala um hvað við græddum mikið og höfum síðan talað um hvað við skuldum mikið.

Þegar við ræðum jafn stóra hagsmuni og hagsmuni lands og þjóðar og setjum í þetta risastóra samhengi, þ.e. alþjóðavettvanginn, hljótum við að vilja ræða fleiri hagsmuni en einungis fjárhagslega/viðskiptalega hagsmuni. Það eru hagsmunir okkar og almannahagsmunir á Íslandi að það sé gott að búa á Íslandi, hér ríki velsæld, friður og gott veður. Peningar, krónur og aurar, gefa okkur auðvitað mikið af þessu. Það er grundvöllur þessa fyrsta heims velmegunarríkis sem við búum í að hér sé atvinna og viðskipti, innflutningur og útflutningur í eðlilegum farvegi.

En það eru fleiri stórmál sem hafa mikil áhrif á líf okkar á norðurhjara. Umhverfismál eru mjög mikilvæg. Því norðar sem maður kemst á jarðarkúluna, því viðkvæmari er náttúran eins og við vitum og þekkjum mjög vel á náttúru Íslands. Reynsla okkar af uppblæstri og gróðureyðingu vegna ofbeitar sýnir okkur hvað landið okkar er viðkvæmt. Við byggjum megnið af atvinnu okkar á landinu okkar og miðunum. Það að sjórinn á Íslandsmiðum sé hreinn og laus við kjarnorkumengun eða hvað það er er lykilatriði í hagsæld Íslendinga. Ég vil bara vekja athygli á því og leggja áherslu á að umhverfismál hljóta alltaf að skipta mjög miklu máli í stefnu okkar á alþjóðavettvangi og að það sé með mikilvægustu hagsmunum Íslendinga á alþjóðavettvangi. Ég hef stundum haft áhyggjur af því í almennri umræðu, sérstaklega um norðurslóðamál, að þar sé lögð mest áhersla á það hvar hægt sé að græða peninga og aura með því að finna olíu eða taka á móti skipum að norðan eða hvað það er en minni áhersla er lögð á umhverfisleg áhrif og umhverfislega hættu sem gæti falist í slíkum aðgerðum.

Aðrir hagsmunir sem skipta mjög miklu máli eru gildi. Þar erum við Íslendingar að mörgu leyti mjög samstiga. Gildi Íslendinga eru nokkuð skýr. Við erum miklir lýðræðisdýrkendur. Við höfum sterkar skoðanir á mannréttindum og innan lands leggjum við mikið upp úr mannréttindum og lýðræði. Við gerum það líka á alþjóðavettvangi og eigum að gera það. Ég fagna sérstaklega, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði hér fyrr í dag, afstöðu hæstv. utanríkisráðherra þegar kemur að viðbrögðum við aðgerðum Rússa í Úkraínu og á Krímskaga. Það væri mjög óeðlilegt fyrir íslensk stjórnvöld að við stæðum ekki þétt með lýðræði og gegn oki þjóða gagnvart öðrum þjóðum. Það væri úrættis fyrir þá þjóð sem braut blað að mörgu leyti í heimssögunni með því að vera fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna að láta ekki heyra kröftuglega í sér á alþjóðavettvangi. Þess vegna fagna ég afstöðu hæstv. utanríkisráðherra og legg að honum að halda þessu áfram á lofti á alþjóðavettvangi, t.d. á vettvangi NATO, ÖSE og norðurskautsins.

Þessi gildi mannréttinda kunna að hljóma ódýr vegna þess að maður setur ekki krónur og aura á þau. Mér finnst mikilvægt að læra af dæmi borgarstjóra, Jóns Gnarrs, sem hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á og berjast fyrir alls konar mannréttindum og gegn mannréttindabrotum hvar sem þau finnast og það kannski án þess endilega að hafa fyrir því djúpar greiningar, skýrslur eða stefnur heldur út frá því íslenska hjartviti að auðvitað erum við Íslendingar andsnúin óréttlæti og yfirgangi, því þegar verið er að níðast á minnihlutahópum. Við erum andsnúin þessu á heimavelli en auðvitað erum við það á heimsvísu líka. Ég legg áherslu á, og mér finnst það koma skýrt fram í skýrslunni, að Ísland stilli sér þarna upp. Þá finnst mér athyglisvert að sjá að Ísland er virkt á alþjóðavettvangi og virkt í samvinnu með hóp vestrænna lýðræðisríkja, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson orðaði það áðan, sem við deilum með grunngildum um mannréttindi og lýðræði.

Það er svo merkilegt að mjög mörg þessara ríkja og okkar nánustu samstarfsríkja eru einmitt ríki Evrópusambandsins. Því finnst mér skjóta dálítið skökku við að þessi sameiginlegu gildi eigi svona vel við á öllum öðrum vettvangi en vettvangi Evrópusambandsins sem hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) hefur útmálað frekar svörtum lit.