143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að dvelja aðeins lengur við það sem hv. þingmaður talaði mest um í ræðu sinni og hæstv. utanríkisráðherra var síðan í andsvari við hann um það mál, það lýtur að stjórnskipulegum álitamálum varðandi EES-samninginn.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að við séum löngu komin út fyrir stjórnskipulegar heimildir gildandi stjórnarskrár um EES-samninginn. Við höfum verið að rekast á hann, eins og við höfum orðað það stundum, í skipti eftir skipti en þegar allt er saman lagt þá erum við komin út fyrir það sem stjórnarskráin heimilar í raun. En er það samt ekki þannig að hinar efnislegu ákvarðanir í EES-samningnum sem hv. þingmaður talaði um áðan eru ekki teknar hér? Það er í raun formleg ákvörðun sem er tekin hér á Alþingi en efnislegar ákvarðanir eru teknar annars staðar. Ef þingmaðurinn er sammála þeim skilningi, er það þá ekki líka þannig að hann getur ekki, miðað við það sem hann sagði hér áðan, fellt sig við EES-samninginn? Erum við þá ekki komin á þann stað að þurfa að ræða bara: hvað þá? Hvað viljum við þá? Ef við viljum ekki EES-samninginn, stöndum við þá frammi fyrir valinu um annaðhvort að fara í Evrópusambandið eða að hætta með EES-samninginn og gera einhvers konar tvíhliða samning ef það skyldi nú vera í boði? Ég er bara að reyna að átta mig á því sem þingmaðurinn velti upp hér áðan hvort við erum komin á þann stað að hans mati að þetta séu valkostir.