143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Vandinn sem ég sé við tilskipanirnar á grundvelli fjármálaeftirlits sem nú eru til umræðu er að þær fela það í sér að þegar kemur að fjármálaáfalli og menn sitja hér einhvern tímann að nóttu til og takast á við erfiðar aðstæður þá verðum við ekki í færum til að ákveða t.d. að setja neyðarlög og skipta bönkunum í gamla og nýja. Það ákvörðunarvald væri tekið af okkur og væri flutt til stofnunar sem við ættum ekki aðild að ákvörðunum hjá samkvæmt öllum útfærslum sem ég hef séð hingað til. Það er í mínum huga óásættanlegt.

Ég hef séð og sá á fyrri tíð einhverjar tillögur um útfærslu á orðalagi greinar. Ég átti ágætissamvinnu með hv. þingmanni um að útfæra hugmyndir í þessa veru í fyrra þegar verið var að ræða mögulegt framsalsákvæði í utanríkismálanefnd. Þá kom fram tillaga t.d. frá sérfræðingum sem miðaði að því að láta EES virka. Hún fól í sér að framsal væri heimilt á grundvelli alþjóðasamstarfs sem Ísland er aðili að og að við gætum framselt svona vald vegna þess að við værum aðilar að EES. Það held ég að væri of vítt og óráðlegt. Ég held að handhöfn valdsins og ábyrgð á meðferð þess verði að fara saman. Ég tel að ekki sé hægt að afhenda valdið til að fara með það eitthvert án þess að við eigum aðild að efnislegum ákvörðunum í því tiltekna samstarfi og það held ég að sé það sem við þurfum að sækja í öllu þessu samstarfi. Ég skil ekki áráttu þessarar ríkisstjórnar að vilja ólm gera okkur að hjálendu erlends valds. Mér finnst eðlilegra að við séum sjálf, í samfélagi við aðrar þjóðir, með vald sem þarf í eðli sínu að vera fjölþjóðlegt.

Hin lausnin er bara sú sem ríkisstjórnin hefur stungið upp á og hangir í, að halda EES-samningnum lifandi sama hvað það kostar. (Forseti hringir.) Það þýðir þá auðvitað að við afsölum valdinu til annarra. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig að við getum ein farið með þetta vald að óbreyttu (Forseti hringir.) í alþjóðavæddum heimi að því er ég fæ best séð.