143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ef hann heldur að einhverjir úr stjórnarandstöðunni geti einhvern tímann komið honum til aðstoðar til að fá frekari fjárveitingar í utanríkisþjónustuna eða utanríkisráðuneyti á hann hauk í horni þar sem ég er, ég er til í að mæla með því hvar og hvenær sem er. Þó svo að því ráðuneyti og þeirri starfsemi allri beri auðvitað að fara vel með fé, þykist ég handviss um að þarna sé um að ræða undirfjármögnun, ef svo má að orði komast. Í því sambandi hef ég náttúrlega áhyggjur af viðhorfi sumra samflokksmanna hæstv. ráðherra til þessarar starfsemi sem endurspeglast á margan hátt, t.d. í nýlegri skriflegri fyrirspurn sem lögð var fram í þinginu.

Ég fagna því líka að unnið er að því, og mátti svo sem vita það, að reyna að afla okkur stöðu strandríkis á norðurskautssvæðinu. Ef ég hef skilið þetta rétt ganga þessar fimm þjóðir ansi hart fram og virðast líta svo á að þær fimm geti ákveðið hlutina meira og minna, sem er ekki rétt samkvæmt þeim samningum sem hafa verið gerðir og starfsemi Norðurskautsráðsins. Það skiptir miklu máli að hér sé vel haldið á spilunum.