143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að vísu að deila megi um það. Ég er þeirrar skoðunar að við styrkjum fullveldi okkar, en hv. þingmaður má reyna að sannfæra mig í ræðum komandi missira um annað. Við endurheimtum a.m.k. hluta af því fullveldi sem við höfum tapað með því að vera meðlimir í Evrópska efnahagssvæðinu ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það er vegna þess að þá höfum áhrif á ákvarðanir og sitjum í stofnunum sem hafa áhrif á líf okkar sem þjóðar.

Ég geri mér grein fyrir því að sú breyting sem hv. þingmaður talar um á stjórnarskránni felur einungis í sér möguleikann á því að taka upp tilskipanir sem hafa afmörkuð, tilgreind áhrif og að þær fela ekki í sér nægilegar framsalsheimildir til þess að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu.

Hv. þingmaður kemur og glottir kaldhæðinn við tönn og spyr hvort ég geri mér grein fyrir þeirri staðreynd. Ég geri það. En fyrir utan það að vera Evrópusinni er ég líka góður Íslendingur. Við þurfum að vinna úr stöðunni eins og hún er hverju sinni með hagsmuni Íslands fyrir brjósti. Ég er fjallgrimmur í þeirri vissu minni að hv. þm. Birgir Ármannsson velur af einhvers konar skilningsskorti ekki þann kost sem bestur er fyrir íslensku þjóðina. En ég veit hann gerir það af góðum huga og telur að það sé hin rétta leið.

Ég er því allsendis ósammála. Ég vil fara aðra leið. En ef hún er ekki í boði eins og sakir standa verðum við alla vega að vinna eins vel úr stöðunni og hægt er.

Ég er orðinn mjög kreddufastur gagnvart stjórnarskránni eins og hv. þingmaður veit. Ég tel að ekki sé (Forseti hringir.) hægt að gera neitt annað en að láta hana njóta vafans, sem þýðir að það verður a.m.k. að fara í minni háttar breytingar á henni.