143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að halda mig við það efni sem menn voru að ræða, það varðar hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar og EES-samninginn. Ég er reyndar ekki sammála því sem kom fram hjá hv. formanni utanríkismálanefndar varðandi þær hugmyndir sem voru til umfjöllunar í utanríkismálanefnd í tengslum við stjórnarskrárbreytingar á síðasta kjörtímabili, að þær hefðu ekki fjallað einnig um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Ég get farið betur yfir það. Ég held að það sé rangur skilningur.

Það sem mig langaði að eiga orðastað um við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem nú er horfinn fyrir horn, er spurningin um breytingar á stjórnarskránni að því er varðar EES-samninginn. Við erum sammála um að stjórnarskráin þurfi að njóta vafans og að við erum farin að rekast í stjórnarskrána alloft og þannig verður það einnig á næstunni. Þá er spurningin hvort þingmaðurinn telji að breytingar á stjórnarskránni eigi að lúta að heimild til framsals til stofnana sem við eigum aðild að eða tökum þátt í. Á því getur verið aðeins merkingarmunur, stofnanir sem við eigum aðild að eða alþjóðasamvinna sem við tökum þátt í. Telur þingmaðurinn að breytingar á stjórnarskránni yrðu eingöngu að lúta að þessu eða ættu þær að vera víðfeðmari til þess að geta tekið til annars konar alþjóðasamvinnu sem menn mundu meta að væri meiri háttar framsal á ríkisvaldi, svo sem aðild að Evrópusambandinu?

Þetta vil ég frá fram frá hv. þingmanni.