143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum um að í sjálfu sér er ágætt að koma í veg fyrir ágreining um lagatúlkun eða réttarágreining og að sjálfsögðu verða menn alltaf að vera undir það búnir að ágreiningur um lagatúlkun, m.a. um stjórnarskrána, sé borinn undir dómstóla. Það leiðir af eðli málsins. En ég tel mikilvægt að reyna að hafa þetta eins skýrt og hægt er. Það sem ég las ekki hér áðan úr tillögunum frá því í fyrra var að þegar menn kæmust að því að valdframsal væri minni háttar þyrftu heimildarlög þar að lútandi að hljóta aukinn meiri hluta á þingi, þ.e. tvo þriðju, en síðan var ákvæði um það að ef þau næðu ekki tveimur þriðja meiri hluta á Alþingi en samt meiri hluta skyldi það fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrirmynd að því er til annars staðar að ef meiri hluti er fyrir breytingu en nær ekki hinum aukna meiri hluta, tilskilda, þá er samt þjóðaratkvæðagreiðsla. Þá er farið með það eins og meiri háttar breytingu, þ.e. ef þingið er ekki samstiga í því að um sé að ræða minni háttar breytingu þannig að það nái tveimur þriðju auknum meiri hluta, þá tekur við sá varnagli að það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og um meiri háttar breytingu sé að ræða, að því gefnu að sjálfsögðu að a.m.k. helmingur þingmanna sé sammála því, ef það nær ekki helmingi verður málið ekki að lögum.

Ég held að það hafi verið snyrtilega séð fyrir þessu, að til að draga úr því að menn fari að rífast mikið um hvort það væri meiri eða minni háttar, þá var alla vega séð fyrir því hvernig málsmeðferðin yrði. Aðalágreiningsmálið gæti þó komið upp ef ágreiningur yrði um hvort yfirleitt væri um valdframsal að ræða eða ekki. Ég held hins vegar að miklu fjarlægara sé að upp komi ágreiningur um það, vegna þess að það hlýtur að vera nokkuð ljóst í löggjöf eða lagafrumvarpi eða þingsályktun hvort tiltekin gerð, (Forseti hringir.) ef við tölum um EES-samninginn, felur í sér (Forseti hringir.) eitthvert framsal á valdi, jafnvel þó að það sé lítið eða takmarkað.