143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

Vestnorræna ráðið 2013.

358. mál
[19:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2013. Við sem hér störfum vitum hversu mikilvægt það er að sinna vestnorræna samstarfinu vel og það höfum við gert á undanförnu ári. Vestnorræna ráðið er þingmannaráð Íslands, Færeyja og Grænlands og hefur starfað frá árinu 1985. Árið 1997 var nafninu breytt í núverandi nafn, Vestnorræna ráðið, og hefur það haft það heiti síðan. Það sitja átján þingmenn í ráðinu, sex frá hverju landi, þannig að þjóðirnar þrjár sitja við sama borð, jafnar með jafnmikið vægi þrátt fyrir talsverðan stærðarmun.

Markmið ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleið Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna þessara þriggja þjóða um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengill á milli aðilanna. Við sem störfum í Vestnorræna ráðinu reynum ná markmiðum okkar með ályktunum sem við samþykkjum á fundum okkar og beinum til ríkisstjórna landanna. Við náum að gera það þannig að ályktanir ráðsins eru lagðar fram í þinginu, ræddar, fjallað um þær í nefndum og þær síðan vonandi allar samþykktar í atkvæðagreiðslu á Alþingi og á hinum þjóðþingunum.

Það kom auðvitað nýtt fólk í ráðið í kjölfar alþingiskosninganna og ég fékk það hlutverk að vera formaður Íslandsdeildarinnar og jafnframt forseti ráðsins þetta árið. Ég verð að segja að þetta hefur verið mjög viðburðaríkt ár og margir fundir sem við höfum setið.

Í fyrsta lagi var þemaráðstefna ráðsins haldin á Ísafirði í janúar 2013 þar sem fjallað var um heilbrigðismál. Út úr þeirri miklu vinnu sem þar fór fram komu nokkrar ályktanir og var dreginn saman mjög mikill fróðleikur vegna þess að þetta er svið, heilbrigðismálin, þar sem þjóðirnar þrjár geta starfað meira saman. Á ráðstefnunni var fjallað um hvernig kerfin eru byggð upp í hverju landi og þá samvinnu sem þegar er til staðar og hvernig framtíðarsýnin er. Heilbrigðisráðherrar landanna greindu frá hugmyndum ríkisstjórna sinna um frekara samstarf og það varð niðurstaðan að nauðsynlegt væri að efla samstarfið enn frekar. Í kjölfarið voru tvær ályktanir samþykktar á ársfundi Vestnorræna ráðsins í haust, annars vegar hvað varðar samstarf heilbrigðisstarfsfólks í löndunum þremur og hins vegar þróun frekara samstarfs á sviði skurðaðgerða.

Ráðið átti síðan fund með heilbrigðisráðherrum landanna þriggja að nýju nú í janúar þegar leið okkar lá til Færeyja á fund þar sem ráðherrarnir þrír funduðu einnig og færðu okkur þau tíðindi að þeir væru að vinna að því á fundi sínum að efla samstarfið enn frekar, og er það mjög ánægjulegt.

Ársfundur ráðsins var haldinn á Grænlandi í ágúst. Fyrir utan ályktanirnar tvær um heilbrigðismálin sem ég fór yfir voru samþykktar tvær í viðbót. Önnur sneri að því að vinna gegn brottflutningi kvenna frá vestnorrænu löndunum, en það er vandamál að konur flytja í meira mæli frá þessum jaðarsvæðum og af því hafa menn eðlilega töluverðar áhyggjur. Ályktunin snýst um að reyna að safna saman gögnum og upplýsingum og rannsóknum um þau málefni þannig að við getum reynt að finna leiðir til að sporna við fótum. Þetta er ekki aðeins bundið við þessar þrjár þjóðir heldur auk þess Samabyggðir á Norðurlöndum og jaðarbyggðir, þannig að þetta er verkefni sem mun halda áfram. Fjórða ályktunin sem samþykkt var á ársfundi ráðsins var um stuðning við les- og skrifblinda. Þær ályktanir hafa allar verið lagðar fram og fjallað um þær í utanríkismálanefnd.

Forsætisnefnd ráðsins samanstendur af formönnum landsdeildanna þriggja, Íslands, Grænlands og Færeyja, en forsætisnefndin átti fund á Norðurlandaráðsfundi í júní í Bodö í Noregi, en forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins er alltaf boðið á fundi Norðurlandaráðs, þ.e. föstu fundina, sumarfund og síðan á Norðurlandaráðsþing sem við tókum þátt í í október. Þar fundaði forsætisnefndin með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og nokkrum ráðherrum vestnorrænu ríkjanna sem við áttum kost á að hitta. Auk þess flutti formaður ráðsins ræðu á þinginu þar sem hvatt var til frekara samstarfs milli Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins, en það er auðvitað mikið samstarf þar á milli og sérstakur samstarfssamningur hefur verið gerður á milli Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs.

Stærstu málin sem við fjölluðum um á þessu ári eru í rauninni tvö. Við samþykktum á ársfundinum að reyna að móta sameiginlega vestnorræna norðurslóðastefnu og hvöttum ríkisstjórnirnar til að reyna að finna út úr því á hvaða sviðum slíkt mundi henta. Til að aðstoða við undirbúning þess hefur Vestnorræna fengið fræðimann, Egil Þór Níelsson, til að gera skýrslu þar sem kortlagt er á hvaða sviðum slíkt samstarf og hagsmunir þjóðanna þriggja fara helst saman. Markmiðið er að leggja niðurstöðuna fyrst fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins til að hægt sé að fara þar yfir hvaða þættir það eru sem ráðið sjálft vill álykta um, en síðan er meiningin að færa ríkisstjórnum landanna þriggja skýrsluna til að hægt sé að útfæra, vonandi, sameiginlega vestnorræna norðurslóðastefnu frekar. Það hefur mikil vinna farið í þetta verkefni og það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig vinnst úr skýrslunni á ársfundi ráðsins sem haldinn verður í Vestmannaeyjum í byrjun september.

Það sem einkenndi jafnframt störf ráðsins var ályktun sem ráðið samþykkti á ársfundi sínum í haust um hótanir Evrópusambandsins og refsiaðgerðir gegn Færeyjum og Íslandi vegna makrílveiða og vegna síldveiða Færeyinga. Í sameiginlegri yfirlýsingu ársfundar ráðsins fordæmdi ráðið harðlega þær aðgerðir sambandsins. Var því sjónarmiði einnig komið á framfæri á sameiginlegri ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs, sem fór fram í kjölfar ársfundarins, og síðan á fundi með Norðurlandaráði annars vegar og hins vegar á fundi sem við áttum með sendinefnd Evrópuþingsins í Strassborg í haust. Þar fórum við vel yfir þessi mál og yfir þau sjónarmið sem Vestnorræna ráðið fór yfir á ársfundi sínum og var sjónarmiðum fulltrúa landanna þriggja í Vestnorræna ráðinu komið skýrt á framfæri, að ekki væri rétt í samskiptum þjóða að fara fram með hótanir um refsiaðgerðir heldur ætti að setjast niður og tala saman og semja. Það er sameiginlegur skilningur allra þeirra fulltrúa sem sitja í Vestnorræna ráðinu.

Eins og ég sagði gekk starfið á árinu mjög vel. Fundir gengu upp samkvæmt áætlun. Ég tel að framtíðin muni bera í skauti sér aukið samstarf landanna þriggja og ég tel það nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi norðurslóðamála. Ég tel rétt að það komi fram að mikill áhugi er í löndunum þremur á að fara dýpra í þá umræðu og það verður mjög fróðlegt að sjá hvaða ávöxt það ber á ársfundi ráðsins í haust.

Forseti. Ég tel að ég hafi gert grein fyrir skýrslunni. Ársályktanir Vestnorræna ráðsins liggja fyrir, þær hafa verið teknar til meðferðar í þinginu og það eru fjórar ályktanir sem reifaðar eru í skýrslunni.