143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan tel ég að kirkjan eigi að vera mjög sjálfráða um eigin starfshætti. Ég get þess vegna alveg sætt mig við að kirkjuþing ákveði hvernig það telur hentugast að haga starfi kirkjunnar og hæstv. innanríkisráðherra leggi samkvæmt lögum fram það frumvarp. Alþingi er hins vegar sjálfstætt. Alþingi ber ekki skylda, tel ég, til þess að taka það frumvarp og gera umyrðalaust að lögum. Þingið fer yfir það og rannsakar eins og öll önnur frumvörp.

Í þessu tilviki er ég þeirrar skoðunar að þingið eigi að reyna að framfylgja hinum efnislega vilja og tilgangi frumvarpsins sem kemur frá kirkjuþingi. Ef þingið kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að einhver ákvæði í þessu frumvarpi eða öðrum sem frá kirkjunni koma séu þess eðlis að þau kunni að brjóta rétt manna ef ekki er nógu vandlega um hann búið, tel ég að því beri engin skylda til þess að samþykkja það. Aftur á móti gæti þingið lagt fram hugmyndir um betri umbúnað frumvarpsins.

Ég hef lýst einni leið hér sem ekki er að finna í frumvarpinu en mér finnst eðlileg miðað við að það virðist spegla stjórnskipan lýðveldisins. Mér finnst að nefndin sem vinnur málið geti fjallað um á þeim grundvelli og eftir atvikum fundið aðrar leiðir sem hún ber undir talsmenn kirkjunnar eins og menn vinna slík mál í nefndum. En þegar kemur að leiðarlokum verður það að vera niðurstaða nefndarinnar sem fjallar um málið og síðan þingsins að það sé skynsamlegt og að það tryggi rétt allra. Það er kannski það sem mestu skiptir.