143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

starfsáætlun og hugmyndir um sumarþing.

[13:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fagna afstöðu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar sem ég tel að fleiri ættu að taka sér til fyrirmyndar. Ég man að á síðasta kjörtímabili héldum við sumarþing, það var reglan frekar en undantekning. Stundum var fundað milli jóla og nýárs, kvöld- og næturfundir voru margir og við skoruðumst aldrei undan, fögnuðum því að Alþingi væri reiðubúið að taka á stórum málum (Gripið fram í.) og vanda sig. Það er kannski til marks um þau nýju vinnubrögð sem núverandi ríkisstjórn ætlar að taka upp og skorti aðeins á á síðasta kjörtímabili, þ.e. að taka sér tíma og vanda sig.

Ég held að þjóðin eigi það skilið og vonast til þess að hv. þm. Helgi Hjörvar komi í lið með okkur hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni og fagni því að menn séu til í að taka til hendinni á Alþingi frekar en að skorast undan því.