143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þar sem hún segist á fésbókarsíðu sinni vera stolt af starfsfólki innanríkisráðuneytisins sem hafi unnið mál kólumbísku kvennanna hratt og örugglega. Í gær var þeim veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum eftir að Útlendingastofnun hafði synjað þeim um hæli. Ég lýsi ánægju minni með þetta mál.

Mig langar einnig til að lýsa ánægju minni með framgöngu hæstv. utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, vegna ástandsins í Úkraínu. Hæstv. utanríkisráðherra fór þangað fyrir helgi til að kynna sér stöðu mála í eigin persónu og eiga í viðræðum við stjórnmálamenn þar í landi. Það tel ég til fyrirmyndar að íslenskur ráðamaður geri í þessari stöðu. Íslendingar eiga að láta heyra til sín á alþjóðavettvangi og innan alþjóðastofnana sem við tilheyrum þegar ríki fara fram með þeim hætti sem Rússar gera. Getum við þar að mörgu leyti tekið Norðmenn okkur til fyrirmyndar sem eru alls óhræddir við að gagnrýna þær þjóðir sem fara fram með offorsi þrátt fyrir að það geti skaðað viðskiptahagsmuni þeirra. Skemmst er að minnast þess hvernig Kínverjar komu fram við Norðmenn eftir að þeir veittu kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels árið 2010.

För hæstv. utanríkisráðherra til Úkraínu sýnir einmitt þann framgangsmáta sem íslenskir ráðamenn eiga að temja sér í málum sem þessum. Hver einasta rödd skiptir máli. Það er von mín að Íslendingar láti ekki hagsmuni sína í Norðurheimskautsráðinu gera það að verkum að þeir kikni í hnjáliðunum gagnvart Rússum. Framganga utanríkisráðherra með för sinni til Úkraínu lofar góðu um framhald hjá þessari ríkisstjórn gagnvart þjóðum sem brjóta grundvallarmannréttindi.