143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka upp þann punkt að atvinnuvegaráðuneytið sé ekki lengur aðili að þessum samningum. Gert er ráð fyrir 30 milljónum að því er ég best veit á liðnum „Ferðamál, ýmis verkefni“. Þá vil ég í rauninni spyrja hvort markmiðið sé að millifæra þessar 30 milljónir yfir til menntamálaráðuneytisins og þær verði áfram í menningarsamningunum. Það liggur ekki fyrir í hvað þeir peningar verða notaðir. Það er þá nokkuð sem við í fjárlaganefnd munum grafast fyrir um.

Mig langar aðeins að benda á úttektina á framkvæmd menningarsamninga sem hæstv. ráðherra vitnaði í og kom út 2013. Þar er einmitt verið að tala um að mörkin á milli ferðaþjónustu og menningarstarfsemi séu óljós. Orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Þá hafa samningarnir leitt til þess að menningarstarfsemi styður við ferðaþjónustu en mörk milli menningarhluta og ferðaþjónustuhluta einstakra verkefna hafa stundum verið óljós og því er til staðar skilgreiningarvandi sem ekki er rétt að gera ráð fyrir að leysist í eitt skipti fyrir öll.“

Mér finnst það í rauninni ekki gott mál ef atvinnuvegaráðuneytið dregur sig út úr þessu núna.

Mig langar líka að benda á að í þessari skýrslu, þ.e. í þessu mati, kemur fram að svæði þar sem eru sérstakir menningarfulltrúar ná betri árangri, en nú er gert ráð fyrir að það verði valkvætt.

Síðan hefur einnig heyrst, og kannski er bara gott að fá staðfestingu á því, að þessi málaflokkur eigi að fara undir byggðamál í atvinnuvegaráðuneytinu. Er það rétt? Á að fara að splitta menningunni upp? Nú er hluti kominn undir forsætisráðuneytið. Á nú að setja hlutann sem snýr að landsbyggðinni undir atvinnuvegaráðuneyti eða umhverfis- og auðlindaráðuneytið, þ.e. byggðahlutann? Það væri gott að fá svar við því og hvort hæstv. ráðherra telji að menning á landsbyggðinni sé að einhverju leyti öðruvísi en menning yfir höfuð.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt, að skrýtið sé að skera niður fjármagn til menningarsamninga þegar þeir hafa reynst vel. Þetta minnir mann á sóknaráætlanir landshluta sem var gríðarleg ánægja með og allir vildu halda áfram með en voru skornar niður í 15 milljónir í fjárlögum, reyndar var upphæðin hækkuð aðeins síðar.