143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og get fullvissað hana um að nefndin er einhuga um að vinna áfram vel í þessu máli. Ég hef ekki skynjað annað þar og leyfi mér hér að tala fyrir hönd allra nefndarmanna.

Það er þó eitt sem ég vildi gera örlitla athugasemd við, þ.e. fullyrðingar um að ef lögin hefðu verið dregin til baka hefði öll sú vinna sem vissulega var unnin verið ónýt. Ég hef ekki heyrt hæstv. umhverfisráðherra nefna að það hafi átt að gera, þ.e. að taka alla vinnuna við hvítbókina og lögin og ýta því algjörlega til hliðar þannig að ekkert tillit yrði tekið til þess. Hins vegar var spurning um að kannski væru lagatæknileg atriði þarna það stór að skoða þyrfti lögin í heild sinni. En ég held að það hafi verið góð niðurstaða að fella lögin ekki úr gildi þegar allt kom til alls.

Það er líka hægt að benda á að margir umsagnaraðilar nefndu að ekki hefði ríkt full sátt um gerð hvítbókarinnar á sínum tíma og hv. þingmaður rakti það hér áðan hvernig nefndin sem skipuð var hefði í raun sjálf lagt til að víkka út starfið, þ.e. gera breytinguna á lögunum frá 1999, en einhverjir nefndu að þeir hefðu ekki átt nægilega aðkomu að því máli.

Ég vildi bara koma með þessar örstuttu athugasemdir en þakka fyrir ræðuna að öðru leyti.