143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það þurfi nú ekki að grufla djúpt í okkar pólitíska minni, okkar hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, til að muna það að það var töluverður hiti hér í þingsal þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir afturkölluninni einmitt vegna þess að menn óttuðust að vinnunni yrði allri kastað fyrir róða, vegna þess að það var ekkert annað sem var á borðinu. Það kann vel að vera að menn hafi hugsað það þannig að það væri hægt að nýta þá vinnu sem fyrir var og raunar hefði varla verið annað hægt, en vegna þess hvað tíminn stundum er afstæður og sérstaklega í ráðuneytum tel ég afar mikilvægt að byggt sé á þeim grunni sem við erum með og þeirri vinnu sem er fyrir hendi og fagna því sérstaklega að sú hefur orðið raunin og sú hefur orðið niðurstaðan.

Ég vil að öðru leyti segja það að ég held að það sé auðvitað gríðarlega mikilvægt að ræða mjög opið við hagsmunaaðila og aðra þá sem að málinu koma og þurfa að lúta löggjöfinni, en ég held að það sé líka farsælla en ella hefði verið að byggja þó á þeim málamiðlunum sem voru komnar og voru í hendi í staðinn fyrir að opna þær allar aftur upp og taka þá, eins og nefndin leggur raunar til, að fara þá yfir þá tilteknu og afmörkuðu þætti sem hér eru rammaðir inn. Ég held að það verklag og sú nálgun séu í raun og veru uppbyggileg og besta leiðin til þess að nálgast þetta krefjandi verkefni.