143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[17:13]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðu um þetta mál helst til að þakka fyrir að það skuli hafa farið í þennan farveg. Ég er einn af þeim sem voru í haust mest hissa á því að það ætti að henda fjögurra ára vinnu út um gluggann þegar hæstv. umhverfisráðherra lagði fram þetta frumvarp. Ég fór að velta fyrir mér til hvers maður væri í stjórnmálum ef ný ríkisstjórn getur bara tekið lög og hent þeim eins og virtist eiga að gera.

Eins og fram kom í máli formanns Bjartrar framtíðar, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, fyrr í dag í þessari umræðu er hv. þm. Róbert Marshall gúrúinn okkar í Bjartri framtíð í náttúruverndarmálum, er í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur unnið að þessum málum ásamt þeim sem eru þar. Alla mína visku í þessum málum hef ég eiginlega frá honum. Ég verð seint talinn mikill náttúruverndarsinni eða var það ekki áður fyrr. Ég var svo sem ekkert mikið að pæla í náttúrunni, hún var bara hérna og manni fannst þetta einhvern veginn sjálfsagt.

Svo þegar líður á og maður eldist og þroskast áttar mig sig á því hversu gríðarlega verðmæt náttúran okkar er. Hún er mikilvæg fyrir landið okkar og eftir að ég varð þingmaður — ég er í Suðurkjördæmi og þar eru langar vegalengdir á milli svæða, alveg 500 kílómetrar austur á Hornafjörð — hafa sumir spurt mig hvort mér finnist ekki leiðinlegt að keyra þetta. Mér finnst það bara akkúrat ekki neitt leiðinlegt vegna þess að náttúran er svo stórkostleg og þó að maður sé að keyra jafnvel einn er frábært að keyra þessa leið og njóta gríðarlegrar náttúrufegurðar á leiðinni. Landið okkar allt saman er í raun ein náttúruperla.

Þess vegna langar mig til að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir sitt frábæra starf, ekki síst formanni nefndarinnar, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrir virkilega vel unnið starf. Það er ekki sjálfgefið að ná sátt í svo stóru máli sem þetta var. Það hef ég fyrir satt frá félaga mínum, hv. þm. Róberti Marshall, sem er í nefndinni að þetta hafi verið fyrst og fremst frábær vinna formannsins. Það er mjög ánægjulegt að maður geti séð svona vel takast til í þinginu. Það er ekki oft sem hafa verið svona ánægjulegar umræður hérna, menn hafa tekist mikið á en þetta færir manni meiri trú á þingræðið og þingstörfin.

Ég get sjálfur sagt frá því hvernig er að vera í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar er unnið afskaplega gott starf þar sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er afskaplega góður og sveigjanlegur formaður sem gefur öllum möguleika á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þetta er það ánægjulegasta við starfið í þinginu. Oftast fær fólk allt aðra mynd af þinginu þar sem ræðumenn hafa hátt í ræðustól og það er sú mynd sem ratar oftast í fjölmiðla. Umræðan í dag hefur hins vegar verið afskaplega ánægjuleg og málefnaleg. Menn greinir á um margt í þessum málum, en mér finnst svo frábært að það skuli vera hægt að koma þessu í þennan farveg. Ég vona svo sannarlega að í framhaldinu verði unnið í víðtækri sátt um þetta mál eins og maður vonar um öll önnur mál. Til þess erum við hérna en auðvitað greinir okkur á um hitt og þetta.

Í haust bauð útivistarhópurinn og fjallabílaklúbburinn 4x4 þingmönnum í fjallaferð. Ég hafði alltaf haft þá hugmynd um þann klúbb að í honum væru krónískir dellukallar. Ég fór að velta fyrir mér hvernig menn nenntu að standa í því að setja svona stór dekk undir bíla og breyta þeim og ferðast um allt. Þegar ég var búinn að fara þessa ferð skildi ég það allt í einu. Við fengum að fara með þeim upp á hálendið, upp undir jökla og að Kerlingarfjöllum. Þetta var ógleymanleg ferð í einu orði þar sem ég upplifði náttúruna algjörlega beint í æð um hávetur. Þetta sýndi manni hversu gríðarlega mikilvæg náttúruvernd er vegna þess að í þeim hópi, 4x4-hópnum, eru örugglega einhverjir almestu náttúruverndarsinnar landsins. Þeir stunda alveg örugglega ekki utanvegaakstur. Það var frábært að hlusta á fyrirlestur þeirra um hvernig þeir hafa merkt landið, farið um og þekkja það eins og lófann á sér. Það er rosalega mikilvægt að hafa samráð við svona fólk þegar verið er að semja náttúruverndarlög.

Ég hef mikla trú á lýðræðinu og að við alþingismenn getum unnið saman í sátt og samlyndi. Mig langar að vitna í heimspeking sem ég hef alltaf bak við eyrun þegar ég er að velta fyrir mér hvernig ég á að vinna. Á vísindavefnum er vitnað í John Dewey, bandarískan heimspeking og menntamálafrömuð, þar sem hann talar um lýðræðið. Hann segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Lýðræði sem persónulegur, einstaklingsbundinn lífsmáti felur ekki í sér neinar grundvallarnýjungar. En þegar hugmyndinni er beitt þá ljær hún gömlum hugmyndum nýja og lifandi merkingu.“

Nú er ég að ruglast, ég er á vitlausum stað. Hérna er það, með leyfi forseta:

„Lýðræði er sú trú að jafnvel þegar þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju til annarrar þá feli vinsamleg samvinna í sér ómetanlega viðbót við lífið — samvinna sem getur, t.d. í íþróttum,“ — ég ætla að skjóta inn „stjórnmálum“ í stað íþrótta — „gert ráð fyrir samkeppni og kappi. Með því að taka sérhvern ásteytingarstein — og þeir hljóta að verða fjölmargir — eftir því sem nokkur kostur er, út úr andrúmslofti og umhverfi valds og aflsmunar sem leið til úrlausnar og inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við — jafnvel djúpstæðum ágreiningi – sem einstaklinga sem við getum lært af og að sama marki sem vini.“

Þetta finnst mér afskaplega gott að lesa vegna þess að þannig lít ég á þetta. Þó að við eigum oft í djúpstæðum ágreiningi og oft virðist vera óyfirstíganlegt að leysa málin er það alltaf hægt ef við tökum öll út úr þessari umræðu eins og hv. umhverfis- og samgöngunefnd virðist hafa gert undir öruggri forustu formannsins, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Hafi hún mikla þökk fyrir það og ég vona svo sannarlega að við náum að vinna áfram í sátt og samlyndi í þessu máli því að það er gríðarlega mikilvægt eins og komið hefur fram í ræðum hér í dag. Menn hafa farið vítt og breitt um völlinn og vitnað jafnvel í eldgamlar lögbækur. Það er virkilega ánægjulegt að hafa fengið að taka þátt í þessu.