143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég kem hér enn og aftur til að minna þingheim á þá deilu sem uppi er um Herjólf. Þar er enn verkfall í gangi og samningsaðilar tala ekki einu sinni saman. (KLM: Talaðu við innanríkisráðherra.) Þrátt fyrir að við þingmenn höfum sagst vera tilbúnir að skoða það að skerast í leikinn og nefnt að setja lög á verkfallið þá fjölgar ekki samningafundunum. Það styttist ekkert á milli aðila og nú er grunnþjónusta í Vestmannaeyjum búin að vera í lamasessi í rúmar þrjár vikur. Ekkert er að styttast í land. Öll ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum liggur niðri, fiskvinnslan hefur nánast lagst af, íþróttalífið er að leggjast af, það er hvorki hægt að fara til keppni né koma til Vestmannaeyja til að keppa í íþróttum.

Vestmannaeyingar koma ekki ruslinu frá sér og svo mætti lengi telja. Svona getur þetta ekki gengið lengur og því held ég að þingheimur verði að fara að skerast í leikinn.

Nú liggur flugið niðri vegna þoku. Það eru engar samgöngur þannig að við verðum að fara að líta þetta alvarlegum augum. Í framhaldinu þegar þessi deila verður leyst verðum við líka að skoða hvort þessi staða eigi að geta komið upp, að svona mikilvæg grunnþjónusta eins og samgöngurnar eru geti verið í svona miklum lamasessi.

Ef þessi deila leysist ekki á morgun mun skipið ekki sigla næstu þrjá daga þar á eftir, ekki fyrr en á mánudag. Eins og allir skilja er ekki hægt að hafa þetta svona og þess vegna verðum við að grípa inn í ef deiluaðilar geta ekki einu sinni sest að borðinu.