143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti hafi verið jafn undrandi og ég þegar hv. þm. Árni Páll Árnason reyndi eina ferðina enn að koma því inn hjá fólki að þessi ríkisstjórn hefði lofað því að það ætti að kosta ríkið 300 milljarða að leiðrétta lánin þegar við erum búin að reyna að útskýra það árum saman fyrir hv. þingmanni og félögum hans að það væri ekki jafn dýrt og hv. þingmaður hélt að leiðrétta lánin og koma til móts við fólk. (HHj: Strax.) Í mörg ár erum við búin að reyna að útskýra fyrir hv. þingmanni að þetta væri ekki svona dýrt og allt í einu á að snúa dæminu þannig við (Gripið fram í.)að vegna þess að við höfum rétt fyrir okkur um að þetta kostaði ekki eins mikið og síðasta ríkisstjórn hélt værum við ekki að uppfylla kosningaloforð. (Gripið fram í.) Fyrr má nú vera í tilraunum til að snúa út úr hlutum.

Svo segir hv. þingmaður að þetta sé fjármagnað af almannafé, með skattfé.

Hér er ákveðinn millileikur þangað til það svigrúm myndast sem ég held að hv. þingmaður sé meira að segja, eins og aðrir, farinn að viðurkenna að verði til. En hvernig er bilið brúað? (Gripið fram í.) Er það ekki meðal annars með skattlagningu sem hv. þingmaður og sú ríkisstjórn sem hann átti aðild að lét algjörlega hjá líða að ráðast í? Hann sleppti meðal annars slitabúinu og þar með talið auðvitað kröfuhöfunum, vogunarsjóðunum sem eiga þær kröfur, algjörlega við skattlagningu. Miðað við röksemdafærslu síðustu ríkisstjórnar um að það sem ekki er skattlagt sé gjöf til þeirra sem ekki eru skattlagðir hefur síðasta ríkisstjórn gefið þessum aðilum yfir 100 milljarða kr. af almannafé.

Hvað varðar svo þriðja lið fyrirspurnar hv. þingmanns og þau úrræði sem þarf til að koma til móts við fólk sem er til dæmis í félagslegu húsnæði mun félagsmálaráðherra fljótlega leggja fram í ríkisstjórn minnisblað um stöðu þess fólks sérstaklega. Sú aðgerð sem hér var ráðist í er til þess ætluð að koma til móts við þann hóp sem síðasta ríkisstjórn hafði fullkomlega vanrækt, (Forseti hringir.) hann hafði legið óbættur hjá garði og núna, fimm árum seinna, er loksins verið að koma til móts við hann.