143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að gerð skýrslunnar hefur tekið tíma, hún hefur kostað mikla peninga, en það sem mér er efst í huga hvað varðar Alþingi og aðkomu Alþingis að þessum málum er hvernig við vinnum úr málum og hvaða skref við tökum inn í framtíðina. Það erum við að gera núna með álitsgerðum okkar og með umræðu. Ég vil taka fram að sitthvað sem snýr að stjórnsýslunni og er gagnrýnt í rannsóknarskýrslunni og við tökum undir í meirihluta- og minnihlutaálitum okkar varðandi formfestu, varðandi samskipti og sitthvað annað varðandi lögaðila hefur verið fært til betri vegar. Að því leyti hefur þessi vinna skilað jákvæðum árangri. Nú er að sjá til þess að við mótum hefð hvað varðar eftirlitshlutverk Alþingis (Forseti hringir.) sem verður okkur öllum til góðs.