143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:35]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð var lengi í vinnslu. Kostnaður við skýrsluna nam um 248 millj. kr. Viðfangsefnið var stórt hjá skýrsluhöfundum, svo stórt að vonlaust var að meta umfangið í byrjun, enda ekki nógu vel skilgreint hjá höfundum þeirrar þingsályktunar sem byggt var á. Afraksturinn veldur vonbrigðum svo ekki sé meira sagt. Það er alltaf vont að blanda saman pólitík og rannsóknarvinnu eins og þessari. Því miður virðast menn hafa fallið í þá gryfju á eftirminnilegan hátt hér. Mikið vantar upp á hlutlæg vinnubrögð og því verður skýrslunnar aðallega minnst sem ágætisplaggs um sögu íbúðalána á Íslandi, lítils annars.

Mín spá er sú að eftir einn dag eða tvo fari skýrslan ofan í skúffu og það heyrist ekki meira af henni. Nokkurra klukkustunda karp í þinginu, er það 248 millj. kr. virði? Nei, ég held ekki og ég veit að svo er ekki. Þetta kennir þinginu vonandi að vanda betur til verka. Það er ekki nóg að heimta rannsóknarskýrslur um allt og ekkert, þingið verður að skilgreina verkið vel og setja upp kostnaðaráætlanir. Rannsóknarskýrslur geta verið af hinu góða. Þær eiga að geta veitt okkur mikilvæga innsýn í það sem miður hefur farið í fortíðinni þannig að við getum lært af þeim. Það gerist þó bara ef vandað er til verka.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vandaði til vinnu sinnar eins og kostur er. 20 gestir sem tengdust málinu með beinum og óbeinum hætti komu fyrir nefndina og þrír símafundir voru haldnir með erlendum aðilum sem voru í tengslum við Íbúðalánasjóð. Allir fundir nefndarinnar utan tveggja voru opnir og var bein útsending frá þeim á sjónvarpsrás Alþingis, á vef Alþingis og í ríkissjónvarpinu.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur að harkalega sé að orði komist í skýrslunni og að meginstefnu til sé ekki hægt að taka undir þá áfellisdóma sem þar koma fram. Hver er svo niðurstaðan eftir öll stóryrðin sem fallið hafa í þingsal um málefni Íbúðalánasjóðs? Tap sjóðsins er ekki 270 milljarðar eins og rannsóknarnefndin hefur haldið fram. Nær væri að tala um 64 milljarða sem er sú tala sem stjórn Íbúðalánasjóðs hefur lagt fram. Rannsóknarnefndin byggði tölu sína meðal annars á að allir lántakendur mundu borga upp lán sín á sama tíma, nánast á sama augnabliki. Það eru furðulegar talnaæfingar svo ekki sé meira sagt.

Formfesta í samskiptum aðila í stjórnsýslunni hefði vissulega mátt vera betri eins og réttilega er bent á í skýslunni. Rannsóknarskýrslan gerir hins vegar of lítið úr þekkingu og hæfi stjórnarmanna Íbúðalánasjóðs, enda voru þeir skipaðir í samræmi við gildandi lög þess tíma.

Höfundar rannsóknarskýrslunnar segja að það hafi vantað skýra húsnæðisstefnu. Stefnan var alltaf skýr: Að reka félagslegan Íbúðalánasjóð sem veitti lán á grundvelli almennra skilyrða með jafnræði í huga, að aðgengi almennings að lánsfé yrði aukið og að stuðla að lægri vöxtum. Sú stefna kom víða fram, m.a. í lögum um húsnæðismál. Rannsóknarnefndin gagnrýnir hvernig staðið var að svokölluðum skuldabréfaskiptum árið 2004 þegar húsnæðisbréfum var skipt yfir í ný íbúðabréf. Gagnrýnt er að ekki skuli hafa verið hlustað á viðvaranir Seðlabankans. Þau mál voru rædd á þingi, m.a. uppgreiðsluáhættan, þannig að mönnum var fullkunnugt um málið þegar ákvarðanir voru teknar.

Rannsóknarnefndin telur að reiknivilla við útreikning svokallaðs skiptiálags hafi á sínum tíma kostað sjóðinn 1,5 milljarða kr. eða 3,5 milljarða á verðlagi ársins 2012. Hér komu skrýtnir hlutir upp við skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Rannsóknarnefndin hafði nefnilega aldrei fyrir því að ræða við þá sem reiknuðu út skiptiálagið en það voru starfsmenn Deutsche Bank. Það var stjórnskipunarnefnd Alþingis sem ræddi fyrst við þá á símafundi og fékk botn í málið. Þeir sem rukkuðu þessar 248 millj. fyrir skýrslugerðina nenntu ekki að taka upp símtólið. Málið er ekki flóknara en það.

Rannsóknarnefndin telur að hin svokölluðu 90% lán hafi verið vegferð sem endaði illa og hér hefur verið vinsælt að benda á Framsóknarflokkinn sem sökudólg. Um það má segja ýmislegt en byrjum á þessu: Íbúðalánasjóður veitti aðeins 40 lán sem náðu hinu nýja 90% verðhlutfalli á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2005, þ.e. fyrsta árinu eftir að þessar reglur tóku gildi. Ný útlán sjóðsins til einstaklinga á þeim tíma námu 2–3 milljörðum kr. á mánuði. Á sama tíma deildu bankarnir út tugum milljarða kr. mánaðarlega til einstaklinga í formi íbúðalána. Íbúðalánasjóður var ekki lengur samkeppnishæfur. Bankarnir buðu 100% lán án hámarksfjárhæðar á meðan Íbúðalánasjóður bauð hæst upp á 15,5 millj. kr. hámarkslán með 90% veðhlutfalli. Hvað þýddi þetta? Jú, fólk fór að greiða upp lánin hjá Íbúðalánasjóði og færði sig yfir í bankana. Var það kosningaloforð Framsóknarflokksins sem var skaðvaldurinn? Auðvitað hljómar það vel í hinni daglegu Morfís-ræðukeppni sem á sér stað hér í þingsölum, en stundum verða þingmenn að sætta sig við sannleikann.

Gleymum ekki nokkrum dyggum stuðningsmönnum við 90% leiðina frá stjórnarandstöðunni. Þegar beðið var eftir niðurstöðu frá Eftirlitsstofnun EFTA á sínum tíma hvort í lagi væri að veita 90% lán kom fram tillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar, hv. þingmönnum Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvar og Katrínu Júlíusdóttur, þar sem þau hvöttu til þess að þegar í stað yrði boðið upp á slík lán, 90% lán, þó að niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA lægi ekki fyrir. Helgi Hjörvar hafði þetta orðrétt að segja árið 2004 um 90% lánin, með leyfi forseta:

„En ég held að það sé mikilvægt vegna fasteignamarkaðarins og væntinga í samfélaginu að ráðherrann staðfesti að það sé fyrirætlun ríkisstjórnarinnar, að því gefnu að eftirlitsstofnunin fallist á málið, að hér verði í boði á þessu kjörtímabili 90% lán, að hámarki 18 millj. kr., til íbúðakaupa þannig að markaðurinn og þeir sem eru í íbúðakaupahugleiðingum geti gengið út frá því sem vísu að gefi ESA grænt ljós verði þetta þær heimildir sem tiltækar verði íbúðakaupendum í síðasta lagi vorið 2007.“

Þetta var hv. þm. Helgi Hjörvar hér í ræðustól fyrir rétt um 10 árum.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en vil aðeins í lokin ræða um efnistöku rannsóknarnefndarinnar. Eins og fram kemur í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er mikilvægt að þeir sem skipa rannsóknarnefndina taki starf sitt alvarlega og vinni það af heilindum og fagmennsku. Rannsóknarnefndarmenn bera ekki persónulega ábyrgð á orðum sínum heldur ber íslenska ríkið ábyrgð á athöfnum þeirra eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstólum. Það er því mikilvægt að hófs sé gætt í orðalagi og að staðhæfingar séu réttar og ekki sé vegið að mannorði manna. Nokkuð vantar hér upp á.

Það er líka nauðsynlegt að verkefni rannsóknarnefnda almennt sé skýrt afmarkað þannig að hægt sé að leggja raunhæft mat á hversu lengi þær þurfa að starfa og hver heildarkostnaðurinn muni verða. Hér brást þingið gjörsamlega að mínu mati. Ég held að við getum lært ýmislegt af þessu máli. Rannsóknarskýrslur geta verið nauðsynlegar eins og ég sagði í upphafi máls míns. Við þurfum hins vegar að hefja þær upp fyrir pólitískt far þannig að umræðan fari ekki að snúast um að annarlegar hvatir hafi ráðið gerð þeirra eða niðurstöðu. Þetta er spurning um að vanda til verka, búa til ákveðinn ramma um verkið og átta sig á umfangi þess og kostnaði. Það mun skila okkur betra verki.