143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði að það væri mikil einföldun að segja að bankahrunið hefði verið orsök þess tjóns sem við sitjum uppi með vegna Íbúðalánasjóðs. Ég vildi þá gjarnan vita hvað annað hefði valdið því tjóni. Er hv. þingmaður að segja að það sé vankunnátta starfsmannanna? Fóru þeir ekki að lögum? Var það einhvers konar vanræksla eða hvað var það? Hvað olli tjóninu?

Ég sé auðvitað ekki annað sjálfur en að þegar Alþingi ákveður að sjóður eins og Íbúðalánasjóður fari í áhætturekstur séu einhverjar ákvarðanir teknar sem valda tjóni, þ.e. að útlán tapist. Engin fjármálastofnun sem stundar slík viðskipti tapar ekki einhverjum útlánum. En er einhver ástæða til að ætla að eitthvað annað en bankahrunið sem slíkt, hrun fjármálastofnana, sé meginorsökin fyrir því stóra tjóni sem við sitjum uppi með núna? Ég vildi gjarnan fá að vita það.