143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað eru margar orsakir þegar eitthvað verður eins og hrun fjármálafyrirtækja. Þetta er ekki nýtt í sögunni, þetta er kannski hluti af því að vera í frjálsu samfélagi. Það er frelsi í fjármagnsviðskiptum og flutningum og það er ákveðið kerfi sem við höfum búið til.

Þetta er vandi og hefur tilhneigingu til að endurtaka sig aftur og aftur. Við þurfum að læra af reynslunni, við þurfum að geta lært þannig að tjónið verði alltaf minna og minna og ekki svo stórkostlegt að heilu samfélögin fari jafnvel á hliðina. En það er ákveðin áhætta.

Varðandi þessa skýrslu er hrunið ekki bara eitthvert innlent fyrirbæri. Þetta er alþjóðlegt fyrirbæri. Kannski verður höggið meira í litlu samfélagi eins og okkar. Við getum sagt að við leyfum þessum fyrirtækjum að vera svona stór. Við leyfum þeim að vera svona öflug sem hefur áhrif á sjóð eins og Íbúðalánasjóð þegar bankarnir eru svona rosalega öflugir þannig að hættan er kannski enn meiri fyrir okkur að taka þátt í þeim áhætturekstri og hafa skattgreiðendur ábyrga fyrir öllu.