143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af málum tengdum Evrópusambandinu.

419. mál
[17:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. menntamálaráðherra er ég kappsmaður um skoðanir mínar, mér er annt um þær og ég vil að þær njóti jafnræðis á við aðrar skoðanir. Ég veit að ef hallar á sjálfan mig í þeim efnum á ég víst skjól og vörn hjá hæstv. menntamálaráðherra og veit að hann mun opna faðm sinn fyrir mér eins og öðrum hrjáðum og smáðum.

Ég vil þó segja skýrt frá upphafi að ég hef aldrei talið að sá málstaður sem ég hef barist fyrir í gegnum lífið hafi með einhverjum hætti sætt nokkrum halla af hálfu fjölmiðla og alls ekki Ríkisútvarpsins. Þvert á móti tel ég að Ríkisútvarpið hafi alltaf vandað sig ákaflega vel, verið fjölmiðill sem hefur gætt hlutleysis í öllu. Þess vegna hefur Ríkisútvarpið notið þessa mikla trausts í gegnum árin. Menn einfaldlega þekkja það af verkunum.

Ég er sem sagt ekki í takt við ýmsa aðra stjórnmálamenn sem eru þeirrar skoðunar að fjölmiðlar leggi þá í einelti, sérstaklega ef þeir verða upphafnir til þeirrar fremdar að verða ráðherrar. Minnist ég sérstaklega hæstv. forsætisráðherra sem hefur kallað framkomu fjölmiðla í sinn garð loftárásir. Ég tel að þeir hafi umgengist hann varfærnislega miðað við tilefnin. En hæstv. ráðherrar hafa haldið því sterklega fram að Ríkisútvarpið hafi með fréttaflutningi sínum tekið afstöðu gegn þeim sem hafa andæft Evrópusambandinu og aðild Íslands að því. Það var meðal annars notað til þess að snúa vönd sem beitt var gegn fyrrverandi útvarpsstjóra. Ég þekki það hins vegar af eigin reynslu að Eyjamenn láta ekki berja sig og útvarpsstjóri greip til harðra varna. Hann fékk fyrirtækið Creditinfo til þess að gera úttekt á fréttaflutningi. Kom í ljós að af þeim fréttum þar sem rætt var við einhverja var nærfellt helmingur þeirra hvorki jákvæður né neikvæður gagnvart Evrópusambandinu. Af þeim sem rætt var við voru 23% þeirra með þannig skoðanir uppi að mætti kalla fréttina jákvæða gagnvart Evrópusambandinu. Hins vegar voru fleiri, eða 34%, sem höfðu uppi skoðanir sem leiddu til þess að fréttin var skilgreind sem neikvæð. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann trúi frekar hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra eða úttekt Ríkisútvarpsins.

Sömuleiðis kom í ljós að af þeim fimm stjórnmálamönnum sem talað var við var einungis einn sem var hlynntur aðild (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann trúi úttektinni að því leyti líka eða hæstv. utanríkisráðherra. Og svo spyr ég málsins vegna, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra telji nauðsynlegt í ljósi þessara upplýsinga að grípa til einhverra aðgerða. (Forseti hringir.) Ég vil þó segja algjörlega skýrt að ég treysti Ríkisútvarpinu í þessum efnum (Forseti hringir.) eins og áður.