143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get nú sagt svipað og síðasti ræðumaður nema bara að ég get sagt að í 31 ár hef ég varla upplifað svona pínlega uppákomu hér á þingi, það er nokkrum árum betur en hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur státað af.

Þetta er alveg með endemum vandræðalega hallærislegt og að það skuli ekki vera fyrr en undir kvöld mánudaginn 31. mars sem það rennur upp fyrir stjórnarliðum að daginn eftir er 1. apríl. Það er nefnilega yfirleitt þannig að 1. apríl kemur á eftir 31. mars. Og að fara að setja þá það samkomulag eða þann ramma sem búið var að ná hér utan um þingstarfið í þessari viku í fullkomið uppnám er náttúrlega alveg ótrúlegt.

Hvað með það þó að það sé 1. apríl? Jú, jú, einhverjir hefðu kannski fundið hjá sér þörf til að gera létt grín að því í byrjun en svo hefði það verið búið og við hefðum væntanlega getað átt hér málefnalega umræðu um þessi stóru mál á morgun og miðvikudaginn, en það er eyðilagt með þessu.

Ég spyr þá virðulegan forseta eins og fleiri þingmenn hér hafa gert: Hvaða grínmál verða þá á dagskrá á morgun? Hvaða mál eru þá nógu léttvæg til þess að þau megi ræða 1. apríl?