143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langaði undir liðnum um störf þingsins að eiga orðastað við hv. þm. Vilhjálm Bjarnason vegna umræðunnar sem varð um skuldaleiðréttinguna í viðtali í Sunnudagsmorgni í Ríkisútvarpinu um síðustu helgi. Þar kom fram að hv. þingmaður teldi að sú aðferð sem hér átti að vera til umræðu í dag væri ekki réttasta leiðin, hér væri ekki um að ræða skuldaleiðréttingu heldur skuldalækkun. Ég hef heyrt líka að ekki sé um almenna aðgerð að ræða heldur sé þetta sértæk aðgerð sem er stefnt að ákveðnum hópi sem varð fyrir forsendubresti á ákveðnum tíma.

Á sama tíma vakti hv. þingmaður athygli á því að öll þjóðin hefði orðið fyrir tjóni við hrunið. Það kom auðvitað misjafnlega niður á einstökum hópum. Margir þeirra fá engar bætur og er ekkert verið að fjalla um að leiðrétta. Leigjendur fá til dæmis lítið og ekki neitt og þeir sem eru með veðskuldir hjá lánasjóðnum fá engar leiðréttingar. Vakin er athygli á því hjá hv. þingmanni að hópurinn sem keypti sér húsnæði á tímabilinu 1994–2004 kemur ágætlega út þrátt fyrir hrunið af því að hann var búinn að kaupa það löngu fyrir hrun. Aftur á móti fer hópurinn sem fjárfesti á árabilinu 2004–2008 mjög illa út úr hruninu og fær sennilega lítið út úr leiðréttingunni líka vegna þess að það er sá hópur sem hafði fengið mestar leiðréttingar hjá fyrrverandi ríkisstjórn.

Það sem vakti þó helst athygli mína voru orð hv. þingmanns um að verðbólguáhrifin væru stórlega vanmetin í þessari leið. Það er mikið áhyggjuefni. Við höfum ekki séð nein frumvörp um afnám verðtryggingarinnar um að með til þess að gera litlum breytingum á verðbólgu verði búið að éta upp þessa leiðréttingu á mjög skömmum tíma. Að vísu var það athyglisvert þegar hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir sagði að ekki ætti (Forseti hringir.) að afgreiða skuldaleiðréttinguna fyrr en verðtryggingarfrumvörpin væru komin inn og að (Forseti hringir.) þau ætti að afgreiða saman. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.